134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

áhrif framsals aflaheimilda í sjávarbyggðum landsins.

[13:41]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Nú er svo komið að jafnvel eitt öflugasta sjávarpláss landsins, Vestmannaeyjar, þarf að verjast ásælni græðgisaflanna, þar með talið banka sem meta frjálst framsal kvóta, gróðann og upplausnarverð fyrirtækja meira en atvinnuöryggi íbúa Vestmannaeyja, forsendur byggðarinnar þar. Það er svo komið að menn spyrja ekki hvort heldur hvenær Vinnslustöðin verði dauðrotuð rekstrarlega. En sem betur fer virðist órofa samstaða Eyjamanna halda enn sem komið er. Þrátt fyrir að aðvörunarljós hafi logað vítt og breitt um landsbyggðina og alvarleg búseturöskun og atvinnubrestur hafi orðið hlutskipti fjölmargra sjávarbyggða hafa ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokksins setið með hendur í skauti. Það hefur verið ríkisstjórnarstefna Sjálfstæðisflokksins frá vori 1991 að til byggðastyrkja kæmi ekki. Það var ekki á dagskrá þeirrar ríkisstjórnar. Það sagði hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra Davíð Oddsson vegna hremminga á Suðureyri.

Það er ekki verið að biðja um byggðastyrki og það er ekki verið að biðja um ölmusu. Það er verið að biðja um að íbúar landsbyggðarinnar sitji við sama borð til lífsgæða og aðrir landsmenn, til atvinnu, til fiskveiða, til vinnslu, samgangna o.s.frv., enda borga þeir sömu skatta. Íbúum landsbyggðarinnar er mismunað með tilliti til stjórnarskrárinnar. Hvort sem við deilum um það með eignarréttarkvóta eða ekki er ríkisstjórninni í lófa lagið að setja málefnaleg skilyrði við úthlutun kvótans. Það stenst fullkomlega að banna framsal eða setja því nauðsynlegar og skynsamlegar skorður svo fremi að þær skorður við úthlutun byggi á almennum, málefnalegum rökum og nauðsyn. Ég hygg að það sé hægt að ná bærilegri sátt um það. Við verðum hins vegar að bregðast við svo að Vestmannaeyjar og ótal fleiri sjávarútvegsbæir lendi ekki á dauðalista framsalskvóta og kerfisins almennt.