134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

áhrif framsals aflaheimilda í sjávarbyggðum landsins.

[13:48]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Hæstv. þingforseti. Það er margt sem steðjar að sjávarbyggðum og frjálst framsal er partur af því fiskveiðistjórnarkerfi sem við búum við. En það þarf að taka sjávarútveginn allan til gagngerrar endurskoðunar, það er ekki nóg að tala um að reyna að laga eitthvað með byggðakvóta. Byggðakvóti í dag upp á 140–150 tonn í einhver sveitarfélög gerir bara ekki nokkurn skapaðan hlut. Sæmilegur vertíðarbátur veiðir svoleiðis afla á einni viku. Ég hef margoft veitt 150 tonn á viku og það er bara alveg út í hött að tala um að hægt sé að nota eitthvað svona til að bjarga hlutunum.

Það þarf að taka sjávarútveginn til gagngerrar endurskoðunar, ekki bara kvótakerfið heldur líka vinnubrögð Hafrannsóknastofnunar og hvernig þeir hjá Hafró hafa unnið að rannsóknum sínum. Forstjóri Hafrannsóknastofnunar, Jóhann Sigurjónsson, hefur leyft sér að tala um að brottkast skipti ekki máli, framhjálöndun skipti ekki máli. Hvers lags vísindamenn eru það sem geta talað svona og sagt svona? Finnst alþingismönnum það trúverðugt þegar forstjóri í stofnun eins og Hafrannsóknastofnun getur sagt að svona skipti ekki máli, ef það er alltaf jafnmikið brottkast á hverju ári skipti þetta bara ekki máli? Það er með ólíkindum að menn sem kenna sig við vísindi og vísindavinnubrögð fullyrði þvílíkt.

Það þarf líka að taka togararallið til endurskoðunar og vinnubrögðin hvað það varðar og mælingu yfir höfuð hjá Hafrannsóknastofnun í fiskatalningu hennar. Það er auðvitað ýmislegt annað eins og að þeir skuli ekki taka með í útreikninga sína núna (Forseti hringir.) mjög góða útkomu í netaralli sem er í sögulegu hámarki. Sú útkoma er ekki (Forseti hringir.) höfð með í fiskatalningunni.