134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

áhrif framsals aflaheimilda í sjávarbyggðum landsins.

[14:03]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari umræðu sem ég tel að hafi verið málefnaleg og sýnir vilja þingmanna til að reyna að fjalla um þessi mál á þann veg að við reynum að tala frekar í lausnum en einungis í gagnrýni og sleggjudómum. Þetta eru snúin mál og á þeim eru ýmsar hliðar sem við þurfum að gaumgæfa.

Almennt talað vil ég segja að ég er þeirrar skoðunar að tiltekin veiðiskylda eigi að vera í þessu kerfi. Ég lít þannig á að um það hafi verið býsna gott samkomulag. Á sínum tíma breytti Alþingi lögunum til þess m.a. að koma til móts við þau sjónarmið sjómanna og útvegsmanna og gekk langt til móts við gagnrýni sem uppi hafði verið varðandi veiðiskylduna. Við settum inn tilteknar reglu, svokallaða 50% reglu, og það sem ég vakti athygli á áðan var að eins og við höfðum gengið frá lögunum, þá er þetta ekki nægjanlega markvisst. Við getum ekki tryggt það nægilega vel að menn fari eftir þeirri reglu sem ásetningur Alþingis stóð til á sínum tíma. Það sem ég vísaði til var fyrst og fremst það að ég tel að við verðum að fara yfir það hvernig við getum gert þessa reglu skarpari þannig að ljóst sé að ásetningur Alþingis, vilji Alþingis sem kom glögglega fram ráði þegar við setjum þessi lög og að lögin séu þannig úr garði gerð að 50% reglan a.m.k. standist. Það er hins vegar vandi ef við aukum veiðiskylduna, eins og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson sagði áðan, að þá koma upp vandamál alveg sérstaklega gagnvart þeim útgerðum sem hafa minni aflaheimildir. Það er athyglisvert að á sama tíma og t.d. sjómannasamtökin öll og Landssamband íslenskra útvegsmanna hafa óskað eftir því að auka veiðiskylduna hafa komið fram kröfur frá sjómönnum og útgerðarmönnum af kvótaminni bátum sem hafa mótmælt þessu. En engu að síður er nauðsynlegt fyrir okkur að fara yfir þessi mál.

Ég vakti líka athygli á því að í rauninni eru meiri framsalstakmarkanir í okkar kerfi en mönnum virðist við fyrstu sýn. Ég fór yfir það á margvíslegan hátt. Menn eiga því ekki að tala um það eins og það séu ekki framsalstakmarkanir. Þær eru til staðar en við þurfum hins vegar að skoða þessi mál í því ljósi sem þessi umræða hefur gefið tilefni til.