134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[14:45]
Hlusta

Frsm. meiri hluta heilbrn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður talar um að auka eigi jöfnuð í kerfinu.

Samt sem áður stendur hann að tillögu og skrifar undir, með leyfi frú forseta:

„Guðjón A. Kristjánsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu.“

Þetta stendur í þskj. 32 sem er nefndarálit minni hluta hv. heilbrigðisnefndar. Hann er sem sagt samþykkur því að fyrstu 80 þúsund krónurnar á mánuði skerði ekki bætur hjá öryrkjum, hjá 67 ára og eldri, öldruðum, þ.e. að maður sem ekki getur unnið og er í sambúð, fær 103 þús. kr. úr Tryggingastofnun og er ekki með neitt annað, kunningi hans sem er nákvæmlega eins settur, er í sambúð með 103 þús. kr. úr Tryggingastofnun og er ekki með neitt úr lífeyrissjóði en getur unnið, hann má hafa 80 þús. kr. í laun og hafa það sama hjá Tryggingastofnun og hinn. (GAK: Í dag er það 25 þús. kr.) Þetta er ekki jöfnuður. (GAK: Til upplýsingar fyrir þig, þú settir sjálfur ...) Þetta er ekki jöfnuður, frú forseti, sem hv. þingmaður stendur að sjálfur. Hann er ekki að jafna kjörin.

Svo hefur hann auk þess lagt til í ræðu sinni að frítekjumark væri sett á lífeyristekjur frá lífeyrissjóðunum. Það er heldur ekki jöfnuður. Þeir sem hafa ekkert úr lífeyrissjóðum njóta þess í engu og það er fólkið sem verst er sett. Þeir sem hafa háar lífeyristekjur fá út úr þessu 10 þúsundkall ef miðað er við 25 þús. kr. frítekjumark og skerðingarstuðul.

Hvorug þessara tillagna sem hv. þingmaður hefur rætt um er til jöfnunar því að sá sem hefur 200 þús. kr. úr lífeyrissjóði mundi njóta 25 þús. kr. frítekjumarks. (GAK: Farðu í guðs friði, Pétur minn.)