134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[15:04]
Hlusta

Frsm. fél.- og trn. (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti félags- og tryggingamálanefndar um tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun til fjögurra ára til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

Eins og fram kemur í nefndarálitinu kallaði nefndin til fjölmarga aðila til að fara yfir þessa þingsályktunartillögu, fyrst og fremst til að leita álits þeirra og fá hugmyndir og ábendingar um með hvaða hætti hægt væri að fjalla um þau mál sem koma fram í tillögunni, vitandi þó að þetta er þingsályktunartillaga sem er fyrst og fremst um það að setja mál í ákveðinn farveg. Þetta eru mál sem fara til ráðuneyta til frekari skoðunar og koma þar af leiðandi á síðari stigum aftur inn í þingið eftir umfjöllun þar.

Meginhugmyndin á bak við þessa þingsályktunartillögu er að skapa samráðshóp undir forustu félagsmálaráðherra, þar eru fulltrúar ráðuneyta, þar sem sameinast er um aðgerðaáætlun í fjölmörgum málaflokkum og eru tilgreindir átta kaflar í aðgerðaáætluninni. Þegar fjallað var um þingsályktunartillöguna var ákveðið að breyta ekki texta í tillögunni heldur bæta við og koma með ábendingar, umsagnir og tillögur um með hvaða hætti skoða ætti málin í framhaldinu.

Ef ég fer yfir nefndarálitið, ég ætla ekki að lesa það upp í öllum atriðum heldur skoða hvern kafla fyrir sig, þá er í fyrsta lagi fjallað um hverjir komu til máls við nefndina og hvað gögn bárust, m.a. frá SÁÁ, Lýðheilsustöð og fleiri aðilum. Næst er fjallað, eins og ég sagði, um samráðshópinn og síðan er kafli sem ég ætla að lesa úr nefndarálitinu:

„Helstu atriði sem lögð er áhersla á samkvæmt tillögunni eru bætt afkoma barnafjölskyldna, m.a. með hækkun barnabóta tekjulágra fjölskyldna, lenging fæðingarorlofs og stuðningur við foreldra í uppeldisstarfi, forvarnaaðgerðir með aukinni hreyfingu og hollari næringu annars vegar og aðgerðir gegn reykingum, áfengisneyslu og ólöglegri fíkniefnaneyslu hins vegar, aðgerðir í þágu barna og ungmenna með þroskafrávik og geðraskanir, sem og langveikra barna, aðgerðir í þágu barna og ungmenna með hegðunarerfiðleika og sem eiga við vímuefnavanda að etja, aðgerðir sem vernda börn og ungmenni gegn kynferðisbrotum og aðgerðir til að styrkja stöðu barna innflytjenda.“

Þetta gefur innsýn í það hversu stór málaflokkur það er sem þarna er lagður undir, mörg mál, og öflug aðgerðaáætlun sem verið er að leggja fram.

Svo segir:

„Nefndin fagnar tillögunni og telur hana vera mikilvægan áfanga á þeirri leið að bæta og styrkja markvisst stöðu barna og ungmenna.“

Það er ítrekað í nefndarálitinu, sem okkur fannst mikilvægt að taka sérstaklega fram, að þar sem verið er að ræða um börn og foreldra er auðvitað átt við öll börn og ungmenni. Þar er verið að tala um fötluð börn, börn óháð búsetu og þjóðfélagsstöðu, börn innflytjenda, bara til að segja það sérstaklega í álitinu, þannig að ekki fari á milli mála að ákvæðin sem þarna eru gilda um öll börn.

Á það er líka bent í nefndarálitinu að nefndin telur efnisatriði tillögunnar vera forgangsverkefni á sviði velferðar í landinu og telur mikilvægt að við framkvæmd hennar verði horft til nágrannaþjóðanna í sambandi við framkvæmdina.

Þá er í nefndarálitinu ítrekað að nefndin telur mikilvægt að leitað verði leiða til að sporna við fátækt og sérstaklega neikvæðum áhrifum hennar á andlega og líkamlega líðan barna og aðgengi að þjónustu. Við viðurkennum að tryggja þurfi að börn óháð efnahag hafi aðgengi að þjónustu og að þeim sé á engan hátt mismunað í okkar ágæta samfélagi. Það er bent sérstaklega á hópa sem huga þarf að, eins og einstæða foreldra og meðlagsgreiðendur, til að tryggja að þeir verði ekki fátæktinni að bráð. Eins er bent á vandamál tengd húsnæðisvanda sem þarf að berjast gegn.

Á bls. 2 í nefndarálitinu er fjallað um fæðingarorlofið og lengingu þess og ítrekað mikilvægi þess að brúa bilið frá fæðingarorlofi þar til dagvistarúrræði taka við og bent á að taka þurfi bæði umgengnis- og forsjármálin til sérstakrar skoðunar með hliðsjón af rétti barna til að njóta samvista við báða foreldra. Það kom ítrekað fram í umræðunni í nefndinni eins og hafði komið fram áður í þinginu að þar sem fjallað er um fæðingarorlof er ekki verið að tala um einhverjar tilfærslur heldur bókstaflega viðbætur í sambandi við fæðingarorlofið.

Næst er í álitinu fjallað um forvarnir og þá er sérstaklega talað um tannverndina og ítrekað að það þurfi að tryggja að tannverndin nái til allra. Nefndin fékk ágæta heimsókn þar sem kynnt var hver staðan væri gagnvart tannvernd og þess vegna kemur fram í nefndarálitinu sú skoðun að leita þurfi leiða til að ná til allra barna hvað varðar skipulagt eftirlit og m.a. var rætt um hvort taka ætti upp skólatannlækningar en það varð ekki niðurstaðan að stinga upp á því heldur sérstakri skipulagðri skoðun eða eftirliti með tannheilsu í tengslum við skólana vitandi að þar höfum við öll börnin og getum með þeim hætti náð til þeirra allra í sambandi við að skoða ástandið og fylgja því eftir með skipulegum hætti.

Þar á eftir er fjallað um stöðu barna og unglinga, og sérstaklega unglinga, varðandi nám í framhaldsskólum og hvernig áhrif búseta getur haft á aðgengi og kostnað í sambandi við framhaldsnám. Nefndin telur mikilvægt að því verði fylgt eftir að hugað verði að atriðum varðandi námskostnað í þéttbýli annars vegar og dreifbýli hins vegar og sá kostnaður jafnaður.

Þá er nefnt brottfall úr framhaldsskólum og að huga þurfi að því í sambandi við umfjöllun um aðgerðaáætlunina. Nefnd er staða drengja sem hefur verið töluvert til umræðu þar sem það kemur fram í mörgum skýrslum að staða drengja er oft verri en stúlkna og brottfallið meira o.s.frv.

Þá er ítrekað að auk íþrótta- og félagsstarfs sem nefnt er í tillögunni þurfi að huga að listnámi, þar með talið tónlistarnámi unglinga, og öllu uppbyggilegu tómstundastarfi ekki hvað síst á vegum sveitarfélaganna og stofnana sem sveitarfélög reka, það er ekki bara horft til frjálsra félaga. Þarna er aftur ítrekað að huga þarf að þessari þjónustu til að tryggja að börn eigi aðgang að henni óháð efnahag og að huga þurfi sérstaklega að þátttöku barna innflytjenda í sambandi við slíkt starf.

Svo kemur kafli í nefndarálitinu sem fjallar um aðgerðir til að vinna á biðlistum eftir þjónustu barna- og unglingageðdeildar og Greiningar- og ráðgjafarstöðvar og er þeim áformum fagnað og mikilvægt talið að fylgja þeim eftir.

Síðan kemur hefðbundinn kafli sem fjallar um kostnað og kostnaðarskiptingu þar sem minnt er á þá sjálfsögðu hluti að auðvitað þurfi að fylgja öllum tillögum varðandi framkvæmd áætlunarinnar ítarlegt kostnaðarmat og það þurfi að sjálfsögðu að vinnast í samráði við sveitarfélög og aðila vinnumarkaðarins og einstakar stofnanir og félög sem tillögurnar fjalla um, þ.e. þingsályktunartillagan og aðgerðaáætlunin.

Þarna er aðeins fjallað um innflytjendur, þ.e. það er heill kafli í þingsályktunartillögunni en það er smákafli í nefndarálitinu, til að skerpa á því að muna eftir að virða og leyfa innflytjendum sem hafa annað móðurmál en íslensku að njóta þess og að halda í kunnáttu á sínu máli. Það er þannig í dag að ekki er mikið um slíka þjónustu við börn, þ.e. að viðhalda þekkingu þeirra á þeirra eigin móðurmáli. Það þarf að huga að því en ekki síður að í framhaldsskólakerfinu, í valkerfinu í skólunum, verði metin til eininga kunnátta þeirra í þeirra eigin tungumáli, líkt og gert er með ákveðin tungumál eins og þýsku og ég nefndi rússnesku í umræðunni um þetta. Það eru til skólar sem bjóða upp á kennslu í slíku og auðvitað njóta þeir krakkar sem koma frá þeim löndum kunnáttu sinnar. En ef við tökum mál eins og pólsku og Asíumálin þá hafa menn ekki leyft þessum einstaklingum að njóta þess að þeir kunna þessi tungumál og þau eru ekki metin. Þarna er smákafli til að minna á þetta til að halda því til haga að það þarf að sinna þessu.

Í lokin er ítrekað að þó að þetta sé ítarleg aðgerðaáætlun um að styrkja stöðu barna og ungmenna þá er henni í sjálfu sér á engan hátt ætlað að rýra hlutverk foreldra í sambandi við uppeldi. Auðvitað verður það áfram að grunninum til á ábyrgð foreldra og skiptir gríðarlegu miklu máli að það sé vel unnið, enda er sérstakur kafli í aðgerðaáætluninni um að styðja foreldra í uppeldishlutverkinu. Þar er talað um námskeið í foreldrafærni sem er byggt á ákveðinni reynslu, m.a. frá Reykjanesbæ og Hafnarfirði þar sem eru tvær ólíkar aðferðir við slíka foreldrafræðslu. Það er líka hægt að sækja fyrirmyndir erlendis frá um foreldrafærni sem þarna er verið að tala um, ekki síst í sambandi við ákveðna áfanga í lífinu, svo sem fyrsta barn og þegar börn fara á milli stiga eins og í grunnskóla eða í framhaldsskóla.

Þetta eru niðurstöðurnar. Það var auðvitað mjög lífleg og góð umræða í nefndinni og ég þakka samnefndarmönnum sérstaklega fyrir það að hafa af lipurð og dugnaði reynt að hjálpa okkur að ljúka þessari vinnu því að þetta er auðvitað umfangsmikið mál.

Allir nefndarmenn skrifa undir nefndarálitið, að vísu þrír með fyrirvara. Ég vona að við náum breiðri samstöðu um nefndarálitið og að því verði fylgt vel eftir. Ég veit að málið er í góðum höndum þannig að við eigum vonandi eftir að sjá árangurinn af þessari stórmerkilegu tillögu sem komin er fram með litlum fyrirvara. Við gerum okkur fyllilega grein fyrir því að auðvitað eru mörg mál sem ekki eru þarna inni en verður að sjálfsögðu fylgt eftir, bæði varðandi málefni fatlaðra og eins menntamálin, en það var nefnd ýmisleg vinna sem er í gangi nú þegar hjá ráðuneytunum og hún kemur að sjálfsögðu inn í þetta á síðari stigum.

Ég hef nú gert grein fyrir nefndarálitinu og nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.

Undir nefndarálitið rita Guðbjartur Hannesson formaður, Ármann Kr. Ólafsson, Ásta R. Jóhannesdóttir, Árni Johnsen, Pétur H. Blöndal og Jón Gunnarsson.

Álfheiður Ingadóttir, Höskuldur Þórhallsson og Kristinn H. Gunnarsson skrifa undir álitið með fyrirvara.