134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[16:25]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru tvö atriði sem mig langar að ræða hér við hv. þingmann varðandi það sem hann kom inn á í ræðu sinni.

Eins og við vitum er þingið að fara að samþykkja mjög veigamiklar og mikilvægar áherslur í málefnum barna. Við skulum halda því til haga að þetta er í fyrsta sinn sem mótuð er heildstæð stefna utan um börnin okkar. Við höfum hingað til verið að samþykkja byggðaáætlanir, vegáætlanir og fleira í þeim dúr, nú er komið að börnunum þannig að það er það sem er verið að gera hér sem er auðvitað fagnaðarefni.

Hv. þingmaður kallaði eftir stefnumótun í húsnæðismálum. Þá þykir mér rétt að benda á það úr þessum stóli og minna hv. þingmann á það að fyrir örfáum dögum var hér heilmikil umræða utan dagskrár um Íbúðalánasjóð. Í þeirri umræðu kom hæstv. félagsmálaráðherra Jóhanna Sigurðardóttir fram með mjög afgerandi yfirlýsingu hvað varðaði húsnæðismálin og þá ekki síst gagnvart þeim sem lægstar hafa tekjurnar. Þar sagði hún að það væri skylda stjórnvalda á hverjum tíma að leita leiða til að lækka kostnað almennings, ekki síst tekjulágra fjölskyldna, við að eignast öruggt húsnæði.

Hún lýsti líka áhyggjum sínum af því að á undanförnum árum, frá 1997, hefur dregið mjög úr hinum félagslega þætti húsnæðiskerfisins og hún lýsti því yfir í þeirri ræðu að það mál yrði skoðað sérstaklega þar sem hún er nú komin í ráðuneytið. Mér þótti rétt að benda hv. þingmanni á þetta.

Að lokum vil ég líka draga það fram að ég er alveg sammála því sem hv. þingmaður sagði þegar honum varð tíðrætt um hið háa íbúðaverð. Ég vil líka benda á það að í tíð síðustu ríkisstjórnar, sem hv. þingmaður studdi lengi framan af, voru vaxtabætur sem eru tæki til að mæta hinu háa húsnæðisverði skertar um meira en milljarð (Forseti hringir.) á síðasta kjörtímabili. Það er auðvitað þáttur sem við þurfum að skoða líka.