134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[16:29]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að yfirlýsingar hæstv. félagsmálaráðherra hafi gefið mönnum innsýn í það hvað verið er að ræða á stjórnarheimilinu og ég treysti hæstv. félagsmálaráðherra fullkomlega til að fylgja því eftir.

Það sem ég átti við áðan var að vaxtabætur sem eru tæki sem við eigum til þess að mæta síhækkandi húsnæðiskostnaði og háum vöxtum á Íslandi voru skertar allverulega á síðasta kjörtímabili.

Aðeins langar mig að koma líka hér að öðrum þætti, hv. þingmaður talaði eins og eingöngu væri lögð áhersla á forvarnir þegar kæmi að vímuefna- og áfengisneyslu í þessari aðgerðaáætlun. Því vil ég bara fá að benda á það að í lið 4 í kafla VI segir að unnin „verði heildstæð aðgerðaáætlun í forvörnum vegna vímuefnaneyslu barna, meðal annars í samstarfi við frjáls félagasamtök“.

Ég vil líka benda á að í skýringum með frumvarpinu segir um kafla IV:

„Ungmennum verður veitt viðeigandi fræðsla um áhrif og afleiðingar áfengisneyslu ekki síður en ólöglegra vímuefna í samræmi við lögbundna fræðslu um tóbaksvarnir í grunnskólum auk þess sem hugað verði að aðgengi ungmenna undir lögaldri að áfengi.“

Þarna er á býsna heildstæðan hátt tekið utan um og því lýst yfir að hér verði mótuð aðgerðaáætlun varðandi vímuefnaneysluna og einnig að skoðaðar verði ekki eingöngu forvarnir gegn áfengisneyslu heldur verði einnig farið yfir aðgengi ungmenna að áfengi. Ég vona að hv. þingmaður samþykki þetta og samþykki að þarna sé verið að taka heildstætt á málefnum barna og ungmenna og áfengis.