134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[16:49]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Guðbjarti Hannessyni fyrir útskýringar hans varðandi tannheilsuna og biðlistana. Það kom samt ekki nógu skýrt fram hvort um væri að ræða eiginlega skólatannlækna eða hvort leita ætti til sérfræðinga úti í bæ. (GuðbH: Það er ekki hugmyndin að það verði skólatannlæknar.) Þá hefur það einfaldlega komið fram að það er ekki hugmyndin að vera með skólatannlækna en í anda annars í þessari aðgerðaáætlun er þetta afskaplega óskýrt og loðið.

Varðandi biðlistana tel ég að ef það stendur ekki til að árangurstengja á nokkurn hátt sé orðalagið villandi eða óskýrt og eigi einfaldlega ekki að vera í aðgerðaáætluninni. En eins og ég kom að áðan er það kannski rangnefni á vilja ríkisstjórnarinnar að gera vel í þessum efnum. En þetta er í raun ekki skýr aðgerðaáætlun.