134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[17:21]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það vakti athygli mína í ræðu hv. þm. Péturs Blöndals þar sem hann var að fjalla um hversu hollt eða ekki hollt það væri fyrir börn að vera í leikskólum jafnvel frá níu mánaða aldri og hann gat þess í ræðu sinni að hann teldi í raun og veru að það væri ekki gott að börn undir þriggja ára aldri að vera í leikskólum. Þar sem hér er á ferðinni framsögumaður af hálfu Sjálfstæðisflokksins í þessari umræðu, ef ég skil rétt, leikur mér forvitni á að vita hvort þetta er almenn skoðun á þeim bæ að leikskólinn ætti helst ekki að vera nema fyrir börn frá þriggja ára aldri og hvort þingmaðurinn hafi kynnt sér það uppeldisstarf og í rauninni fræðslu- og menntastarf sem fram fer í leikskólum almennt. Hvort hann telji að það sé af hinu vonda og hvort hann telji að börn hafi betra af því að vera í uppeldi heima hjá sér allan daginn með öðru hvoru foreldra, t.d. fyrir framan tölvuna sem hann nefndi sérstaklega í máli sínu.

Ég ætla ekki að vera með neinar fullyrðingar um hvað þingmaðurinn á við en mér leikur forvitni á að vita hvort hann sé þeirrar skoðunar að það ætti frekar að draga úr því að börn fari á leikskóla eins og þróunin hefur verið undanfarin ár, að auka og efla starfsemi leikskólanna í landinu og gera þá jafnvel gjaldfrjálsa þannig að þeir séu raunverulega hið fyrsta skólastig eins og lög kveða á um.