134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[17:23]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Í þessu máli er ég ekki fulltrúi eins né neins nema sjálfs mín og ég held að flestir þingmenn séu það og samkvæmt stjórnarskránni eru þeir eingöngu bundnir af sannfæringu sinni. Ég er ekki að mæla hér fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins, dettur það ekki í hug, hver og einn er alveg einfær um að svara fyrir sig. Ég er bara að tala um það sem ég tel í þessu máli, þetta er ekki stórpólitískt mál. Ég hef upplifað það — ég er nú búinn að ala upp sex börn — að börn undir þriggja ára aldri, það er reynsla mín almennt séð, vilja vera heima hjá sér. Þau vilja ekkert fara í heimsóknir eða fara út svona almennt séð. Auðvitað er það geysilega misjafnt. Sum þeirra hafa gaman af því að fara að heiman, jafnvel eins árs, tveggja ára, sum þeirra þola það bara alls ekki. Ég hef upplifað það í þessum frábæru skólum þar sem uppeldisaðferðirnar eru allar mjög góðar að barn grenjar og grenjar. Það veit bara ekki af því hvað þetta er æðislega góð aðstaða. Það langar bara til að vera heima, það er svo einfalt.

Þetta er mjög misjafnt og það getur vel verið að sum börn hafi gott og gaman af því að fara á leikskóla en ég held að þessi síaukni þrýstingur að setja börn á leikskóla sé vegna þrýstings atvinnulífsins, vegna þrýstings alls kerfisins. Það er ekki bara verið að horfa á hagsmuni barnsins, ég held það. Ég held að menn ættu virkilega að fara að skoða það og jafnvel spyrja börnin þó að þau geti kannski ekki svarað beint, þau svara með hegðun sinni, hvort þeim líki að fara að heiman klukkan 8 eða 9 á morgnana og vera dröslað upp í bíl í öllum veðrum og fara að vinna.