134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

Stjórnarráð Íslands.

1. mál
[18:31]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þau sjónarmið og málflutning sem hv. þm. Atli Gíslason hafði uppi sem framsögumaður minnihlutaálits allsherjarnefndar, sem ég stend að ásamt honum og hv. þm. Siv Friðleifsdóttur.

Til viðbótar vil ég koma að því að það liggur fyrir að minni hlutinn stóð að störfum í nefndinni með málefnalegum hætti og vildi leggja sitt lið til þess að afgreiða frumvarpið sem hér um ræðir í fullri sátt við meiri hlutann. Það var ljóst að þótt skoðanir gætu verið skiptar um nokkur atriði þá var eitt atriði algjörlega sérstakt, þ.e. ákvæði 3. gr. frumvarpsins.

Eins og hv. þm. Atli Gíslason kom inn á í ræðu sinni áðan þá skiptir þetta ákvæði engu máli varðandi þá breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands sem er tilkomin vegna breytinga sem hafa orðið varðandi ríkisstjórn Íslands. Þarna var sett inn ákvæði þar sem vikið var frá hefðbundnum skilmálum varðandi ráðningu starfsmanna hins opinbera. Við erum að tala um starfsmenn Stjórnarráðsins. Það liggur fyrir að við erum að tala um hóp starfsmanna, fjölda starfsmanna, um 600 manns eða rúmlega 560 stöðugildi. Við erum að tala um að auglýsingaskyldan, eins og hún er samkvæmt þeim lögum sem gilda, verði afnumin gagnvart þessum hópi. Þarna er búin til sérstök víggirðing, sérstakt virki utan um Stjórnarráðið þar sem um er að ræða tilflutning starfa án þess að um hefðbundnar auglýsingar sé að ræða.

Þá spyr ég: Hvað gerði það svo nauðsynlegt að taka þetta mál á dagskrá og keyra í gegn á þessu sumarþingi? Hvaða máli skipti þótt það hefði beðið og verið tekið upp til skoðunar í fullu samstarfi við þau stéttarfélög sem um er að ræða og stjórnarandstöðuna? Við í minni hlutanum fórum fram á, sérstaklega með tilliti til þess að við bættist nýr málsliður við 3. gr. af hálfu meiri hluta nefndarinnar, að kallað yrði á nýjan leik í talsmenn þeirra samtaka sem um er að ræða, þ.e. BHM og BSRB, en því var hafnað. Við vildum fá forustumenn stéttarfélaganna til að gera grein fyrir því hvort þeim fyndist í sjálfu sér sú viðbót sem borin var fram einhverju máli skipta eða ekki. En ekki var um það að ræða að þetta fengist í gegn og þar af leiðandi liggur afstaða þeirra ekki fyrir.

Hv. þm. Atli Gíslason gerði grein fyrir sjónarmiðum frá Bandalagi háskólamanna og BSRB, þegar þeir komu fyrir nefndina og erindi sem þeir sendu allsherjarnefnd. Það liggur fyrir að bæði þessi starfsmannafélög leggjast eindregið gegn því að 3. gr. verði samþykkt. Það liggur hins vegar ekki fyrir hver afstaða þeirra er til viðbótarinnar sem meiri hluti allsherjarnefndar leggur til, þ.e. síðustu setningarinnar í ákvæðinu eins og það liggur fyrir. Þó má ætla, miðað við það orðalag sem kemur fram hjá Bandalagi háskólamanna í erindi sem þeir sendu til allsherjarnefndar, að samtökin séu alfarið á móti reglunum hvort sem er. Í erindinu segir að BHM leggist á móti því að auglýsingaskylda starfa verði afnumin innan Stjórnarráðs Íslands. Þá breytir sú viðbót sem hér er um að ræða engu. BHM leggst á móti því að auglýsingaskylda starfa verði afnumin innan Stjórnarráðs Íslands. Það er höfuðatriðið.

Bandalagið vekur athygli á því að grunnhugsunin á bak við auglýsingaskyldu opinberra starfa sé að tryggja að hæfasti starfsmaðurinn sé ráðinn í hverju tilfelli og jafnframt að gagnsæi sé tryggt við ráðningu opinberra starfsmanna. Það er jú það sem máli skiptir í þessu sambandi, að gagnsæi sé tryggt, hæfasti starfsmaðurinn ráðinn og að fólkið í landinu viti hvað um er að ræða. En það á að víkja frá þessu varðandi þennan vinnustað sem um er að ræða, Stjórnarráðið, þennan mikilvæga vinnustað, þvert á skoðanir og þau sjónarmið sem komu fram frá þeim stéttarfélögum þar sem meginhluti starfsmanna Stjórnarráðsins er aðili að. Maður skyldi ætla að það hafi verið vilji ríkisstjórnarinnar, vilji meiri hlutans, að taka tillit til þeirra sjónarmiða sem þar koma fram. En nei, það var ekki.

Í viðbótinni sem lögð er til af hálfu meiri hluta allsherjarnefndar segir:

„… við 3. gr. bætist nýr málsliður þar sem kveðið verði á um það að forsætisráðherra skuli setja reglur sem mæli fyrir um tilhögun auglýsinga innan Stjórnarráðsins um laus störf og önnur atriði er varða framkvæmd þessa ákvæðis.“

Það var farið fram á að fulltrúar stéttarfélaganna gerðu grein fyrir þeim sjónarmiðum sem þau hefðu varðandi þessa viðbót en við því var ekki orðið. Ég hef getið um það fyrr í ræðu minni að þá má ætla, miðað við orðalagið í bréfum frá Bandalagi háskólamanna og BSRB að þeim muni ekki finnast þessi viðbót skipta máli. Þarna er um frávik að ræða frá auglýsingaskyldunni sem bæði þessi stéttarfélög telja að beri að sinna og eigi að vera ófrávíkjanleg.

Ég er á móti þessari viðbót á þeim forsendum að ég tel að með henni sé löggjafarvaldið að framselja vald sitt með óeðlilegum hætti til ríkisstjórnarinnar. Það hefði verið eðlilegra og sæmra að Alþingi mótaði sjálft þær starfsreglur sem eiga við í þessu efni, að Alþingi setti sjálft þær reglur sem mæla fyrir um tilhögun auglýsinga innan Stjórnarráðsins, yrði samþykkt að fara þá leið sem meiri hlutinn leggur til.

Það er óeðlilegt að einn ráðherra í ríkisstjórninni, forsætisráðherra einn, eigi að hafa með það að gera að geðþótta með hvaða hætti og hvernig skuli standa að auglýsingum starfa innan Stjórnarráðsins og hvernig þeim tilkynningum skuli háttað. Það hefði verið eðlilegra að Alþingi sjálft hefði um það fjallað. Farið var fram á það að gerð yrði grein fyrir inntaki þeirra reglna sem þarna væri um að ræða. Hvað væri átt við þannig að Alþingi væri ekki að samþykkja einhverja viðmiðun, einhver sjónarmið, orð án innihalds. Við því var ekki orðið. Sú regla sem hér er lögð til er í raun ekki önnur en sú að forsætisráðherra skal mæla fyrir um tilhögun auglýsinga innan Stjórnarráðsins um laus störf og önnur atriði er varða framkvæmd þessa ákvæðis.

Hvenær skyldi svo forsætisráðherra eiga að mæla fyrir um þessa tilhögun? Hvenær skyldi hann eiga að ganga frá reglum um þessi atriði? Hvað skyldi nú segja í frumvarpinu um það? Merkilegt nokk. Það segir akkúrat ekkert um það. Hvaða heimildir hefur þá forsætisráðherra varðandi þau atriði? Hann hefur gjörsamlega ótímabundnar heimildir. Síðasta viðbótin var tilraun til að setja þetta óheillaákvæði í einhvern skynsamlegri farveg til þess að reyna að láta líta svo út sem komið væri til móts við minni hlutann og þau stéttarfélög sem hér er um að ræða, þótt sú sé ekki raunin. Samt sem áður tekst ekki betur til en svo að þetta er í raun ótímabundið og ég vil nánast segja innihaldslaust ákvæði. Geðþóttaákvörðun.

Alþingi framselur forsætisráðherra lagasetningarvald og felur það geðþóttaákvörðun forsætisráðherra að ákveða einhvern tímann þegar honum hentar að setja reglur um það hvernig meðferð auglýsinga og tilkynninga um störf innan Stjórnarráðsins skuli háttað. Þetta er með öllu óeðlilegt, að standa þannig að framkvæmd mála, standa þannig að lagasetningu.

Mér til mikils ama þá starfar Alþingi Íslendinga undir skjaldarmerki dansks arfakonungs. Ég hefði talið eðlilegra að það skjaldarmerki yrði brotið niður og hins vegar skjaldarmerki lýðveldisins Íslands tekið upp og sett á Alþingishúsið. Það hefði verið eðlilegt fyrir sjálfstæða þjóð að standa þannig að málum. En mér til mikils ama þá störfum við undir merki danska arfakonungsins en einkunnarorð þeirra konunga, sem höfðu þegið að eigin mati vald sitt frá Guði, ekki frá fólkinu heldur frá Guði. Það er munurinn á lýðveldissinnum og konungssinnum að lýðveldissinnar telja að valdið stafi frá fólkinu en konungssinnar að vald sumra stafi frá Guði og sumir hafi blárra blóð en aðrir. En við lýðveldissinnar viljum að réttindi fólksins séu virt. En arfakonungarnir dönsku sem þjóðin laut um aldir höfðu einkunnarorðin: „Vér einir vitum.“ Vér einir vitum. Þá kom fólki bara ekkert meira við hvað og hvernig hlutirnir gengu að öðru leyti. Því þeir einir vissu.

En dönsku arfakonungana skipti engu máli hvað var sagt. Það voru reyndar fleiri arfakonungar. Það er hægt að fara í söguna og vísa til þess sem Friðrik mikli Prússakonungur, sem taldi sig einn helsta talsmann upplýsingarinnar, sagði á sínum tíma. Hann sagði að þegnarnir mættu hafa þær meiningar sem þeir vildu. Þeir mega segja það sem þeir vilja en það er ég sem ræð. Mér finnst meiri hlutanum farast dálítið eins og dönsku og prússnesku arfakonungunum fórst varðandi það að taka afstöðu með þeim hætti sem gert er hér. Það hefði verið eðlilegra að taka hlutina með lýðræðislegum hætti, taka tillit til þeirra sjónarmiða sem komu fram og tillit til andsvara, til viðhorfa stéttarfélaganna, til viðhorfa minni hlutans sem var tilbúinn til alls samstarfs um það að koma lágmarks vitrænum hlutum í þessa tillögu.