134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

Stjórnarráð Íslands.

1. mál
[19:17]
Hlusta

Frsm. meiri hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt sem ráða mátti af ræðu hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur að auðvitað eru í þessu máli sem varðar 3. gr. þessa frumvarps ákveðin rök með og ákveðin rök á móti. Það er síðan okkar hlutverk hvers og eins að vega og meta hvor sjónarmiðin okkur finnst vega þyngra og það er akkúrat að því leyti sem okkur greinir á. En ég skal fyrstur viðurkenna að vissulega eru rök fyrir mismunandi afstöðu í málinu.

Vegna ræðu hv. þingmanns að öðru leyti vil ég kannski staldra við þau ummæli hennar að þessi breyting hafi dottið af himnum ofan og sé ekki í sérstöku samhengi við þær breytingar sem eru boðaðar í öðrum ákvæðum frumvarpsins, þá er það er rétt að þetta er sjálfstæð breyting sem þarna er lögð til.

Hins vegar verð ég að segja að ekki er óeðlilegt að hugað sé að þessum málum á sama tíma þegar ljóst er að breytingar verða á högum talsverðs fjölda starfsmanna Stjórnarráðsins vegna þeirra breytinga á ráðuneytum sem frumvarpið að öðru leyti gerir ráð fyrir. Því er ekki óeðlilegt að huga að þessum málum í samhengi þó að það sé vissulega rétt að breytingarnar gætu staðið hver fyrir sig, annars vegar 3. gr. og svo hins vegar hin ákvæði frumvarpsins. Mér finnst þetta nú ekki atriði sem ástæða er til að velta sér mikið upp úr.

Varðandi annað atriði í ræðu hennar verð ég að segja að mér finnst ekki rétt lýsing á innihaldi ákvæðisins að tala, eins og hún og fleiri hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa iðulega gert, um afnám auglýsingaskyldu. Auglýsingaskyldan verður áfram fyrir hendi sem almenn regla. (Forseti hringir.) Hér er hins vegar gert ráð fyrir undantekningu sem mun þó lúta sérstökum reglum eins og gert er ráð fyrir í breytingartillögu meiri hlutans.