134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

Stjórnarráð Íslands.

1. mál
[19:19]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Jú, þessi breytingartillaga í 3. gr. dettur af himnum ofan. Hér er sagt að ekki sé óeðlilegt að huga að þessum málum núna af því að breytingar eru að verða á ráðuneytum, ég er ekki sammála þessu. Þó að breytingar séu að verða á ráðuneytum og þar með kemur ákveðið rót innan Stjórnarráðsins, menn eru að flytjast úr sínu gamla ráðuneyti yfir í eitthvert sameiginlegt ráðuneyti eða verkefni eru að flytjast á milli ráðuneyta, ef fólk er eitthvað ósátt við það og vill láta færa sig til vegna þessa róts sem óhjákvæmilega kemur, þá mundu þeir aðilar bara sækja um það starf eins og aðrir sem hafa áhuga á því starfi. Starfið yrði bara auglýst og þeir sem eru innan ráðuneytanna gætu sótt um viðkomandi starf en líka þeir sem væru utan ráðuneyta og eru í einhverjum allt öðrum störfum á markaði og svo yrði bara sá hæfasti ráðinn. Ég sé ekki að þessi 3. gr. tengist ekki hinu málinu, hún kemur inn af allt öðrum ástæðum. Enda segir í frumvarpinu að þetta hafi verið í umræðunni lengi, löngu áður en þessi ríkisstjórn var mynduð o.s.frv. Þetta tengist því ekki.

Verið er að afnema auglýsingaskylduna. Í dag er auglýsingaskylda en verið er að afnema hana og þess vegna rísa bæði BSRB og BHM upp á afturfæturna og segja: Við erum alfarið á móti þessu. Þetta er mikil breyting, þetta er grundvallarbreyting því verið er að afnema auglýsingaskylduna. Menn geta auglýst ef þeir vilja en menn geta líka sleppt því ef þeim þóknast svo, en það er ekki hægt í dag. Þetta er því grundvallarbreyting.