134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

Stjórnarráð Íslands.

1. mál
[19:21]
Hlusta

Frsm. meiri hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Svo ég taki upp þráðinn þar sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir skildi við hann þá er auglýsingaskyldan almenn regla í dag. Eins og kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans og kom skýrt fram í umræðunni í nefndinni er svigrúm fyrir hendi innan ráðuneytanna. Ef deildarstjórastaða losnar er ekki skylt að auglýsa þá stöðu ef t.d. sérfræðingur í sama ráðuneyti er færður í það starf. Ef starf í deild A í ráðuneyti losnar er heimilt að færa starfsmann úr deild B í þá stöðu án opinberrar auglýsingar. Þetta er því ekki alveg eins einfalt og hv. þingmaður vill vera láta.

Það sem m.a. er verið að gera með þeirri breytingu sem lögð er til er að útvíkka þetta svigrúm sem nú er til staðar innan ráðuneytanna yfir á Stjórnarráðið sem heild. Eins og ég gat um í framsöguræðu minni er það ákveðin nálgun að nálgast Stjórnarráðið í þeim skilningi frekar sem einn vinnustað en sem safn 12 eða 13 mismunandi vinnustaða. Fyrir því eru í mínum huga ákveðin rök vegna þess að eðli þeirra starfa sem eru unnin innan einstakra ráðuneyta er oft svipað. Þó að viðfangsefnin séu ólík eftir þeim málaflokkum sem ráðuneytin fást við er eðli starfanna sem felst í undirbúningi lagafrumvarpa, samningu reglugerða, töku stjórnvaldsákvarðana eða aðstoð við ráðherra við pólitíska stefnumörkun svipað. Þetta eru eðlislík störf þó að viðfangsefnin séu ólík frá einu ráðuneyti til annars.

Þess vegna og í ljósi þess að sjónarmið hafa verið uppi sem ég tel að séu mjög veigamikil um að rétt sé að auka þennan sveigjanleika innan Stjórnarráðsins, m.a. vegna hagsmuna þeirra starfsmanna sem hugsanlega vilja láta flytja sig til, fá frama í einu ráðuneyti, ef þeir sjá ekki (Forseti hringir.) stöður losna í öðru ráðuneyti o.s.frv., þá tel ég að þetta séu góð og gild rök fyrir þeirri breytingu sem hér er lögð til.