134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

verðbréfaviðskipti.

7. mál
[21:45]
Hlusta

Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir greinargóðar útskýringar hv. þm. og formanns viðskiptanefndar, Ágústs Ólafs Ágústssonar. Hér er rætt um frumvörp til laga um verðbréfaviðskipti, kauphallir og fjármálafyrirtæki. Við vinstri græn erum sammála nefndarálitinu en höfum fyrirvara varðandi þáttinn um heimaríkisregluna. Í henni felst að Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með fyrirtækjum, lögum og reglum um verðbréfaviðskipti þess lands sem fyrirtækið er frá, sem er með útibú hér á landi eða útibú héðan erlendis.

Fjármálaeftirlitið fer með eftirlit með fyrirtækjum sem eru með skráða skrifstofu hér á landi og einnig með starfsemi þeirra erlendis. Í þessu frumvarpi á heimaríkisreglan reyndar eingöngu við um verðbréfaviðskipti og að mati þeirra hagsmunaaðila sem umsagnir hafa gefið um málið er óþarft að hafa af því áhyggjur.

Virðulegi forseti. Þróun gæti verið umhugsunarverð í kjölfar þessa, t.d. þjónustutilskipunin sem reynt var að koma á og hefur verið í undirbúningi innan Evrópusambandsins og átti að reyna að knýja í gegn á sínum tíma, en með henni átti ekki einungis að heimila eftirlitsskyldu heldur innleiða allar reglur og þar með talið reglur er snúa að launakjörum og starfsréttindum launþega. Þetta getur m.a. grafið undan vinnurétti og ber því, virðulegi forseti, að hafa rækilega í huga og vera vakandi yfir áframhaldandi þróun.