134. löggjafarþing — 9. fundur,  13. júní 2007.

vatnalög – hækkun launa seðlabankastjóra.

[10:33]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Setning nýrra vatnalaga, heildarlaga, í stað þeirra sem gilt hafa frá 1923 var eitt allra umdeildasta mál á 132. löggjafarþingi, næstsíðasta þingi. Þáverandi stjórnarandstaða sameinaðist í andstöðu við það mál og lagði til að því yrði vísað frá. Meginrök stjórnarandstöðunnar voru þau að með frumvarpinu væri hróflað með óábyrgum og óvarlegum hætti við farsælli niðurstöðu Alþingis um nýtingarrétt á vatni frá 1923 og að einkaeignarrétti væri gert of hátt undir höfði. Við lokameðferð málsins eftir harðar deilur náðist sú málamiðlun að fresta gildistöku nýrra vatnalaga fram yfir kosningar á þessu vori og þar til nýtt þing hefði haft aðstöðu til að taka afstöðu til málsins. Gildistakan er því miðuð við 1. nóvember nk.

Við þingmenn Vinstri grænna höfum flutt frumvarp um brottfall þessara umdeildu vatnalaga, laga nr. 20/2006, sem liggur fyrir þessu þingi en nú lítur því miður ekki út fyrir að tími vinnist til að taka það mál á dagskrá, hvað þá að það fái efnislega afgreiðslu. Í því ljósi er óumflýjanlegt að spyrja forustumenn ríkisstjórnarinnar og ég beini spurningum þá til hæstv. forsætisráðherra: Um hvað hafa stjórnarflokkarnir samið í þessum efnum? Gildir afstaða Samfylkingarinnar um að fella lögin úr gildi eða eitthvað annað og er þess að vænta að frumvarp verði flutt og þá ekki seinna en í upphafi næsta þings þannig að koma megi í veg fyrir að lögin taki gildi 1. nóvember nk. sem þau munu annars gera að óbreyttu?

Ég held að það sé á sínum stað að hæstv. forsætisráðherra upplýsi Alþingi um þetta. Að sjálfsögðu getum við endurflutt mál af þessu tagi við upphaf næsta þings en það er alveg ljóst að það er ekki mikill tími til stefnu ef menn ætla að fella úr gildi eða endurskoða sérstaklega með einhverjum hætti þau lög.