134. löggjafarþing — 9. fundur,  13. júní 2007.

vatnalög – hækkun launa seðlabankastjóra.

[10:36]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir að inna eftir þessu málefni sem svo mjög brann á þinginu á síðasta kjörtímabili, enda lög nr. 15/1923 einhver þau gagnmerkustu sem sett hafa verið í þessari stofnun frá upphafi og er þá langt til jafnað.

Það er út af fyrir sig óþarfi að bæta nokkru við það sem fram kom hjá hæstv. forsætisráðherra. Það er viðbúið að iðnaðarráðherra fari yfir málið eins og fram kom hjá forsætisráðherra. Það hefur ekki verið samið um það í þessum stjórnarsáttmála með neinum hætti en er til umfjöllunar auðvitað eins og önnur mál, auk þess sem fyrir liggur að á kjörtímabilinu mun ríkisstjórnin þurfa að beita sér fyrir innleiðingu á vatnatilskipun Evrópusambandsins sem var eitt af stóru atriðunum sem við í stjórnarandstöðunni lögðum ríka áherslu á í málflutningum á síðasta kjörtímabili að mikilvægt væri að ná í höfn, einmitt til að tryggja almannahagsmuni og almannarétt í þessu málefni.

Það er auðvitað þannig að yfirlýsingar fyrri stjórnarandstöðu um að afturkalla lögin fengi hún til þess þingmeirihluta í kosningum eiga ekki við lengur því að eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon veit fékk fyrrverandi stjórnarandstaða ekki þingmeirihluta í síðustu kosningum til að fylgja þeim yfirlýsingum eftir og þess vegna er sú staða uppi núna að við höfum aðra ríkisstjórn og nokkuð breytta stjórnarandstöðu.