134. löggjafarþing — 9. fundur,  13. júní 2007.

vatnalög – hækkun launa seðlabankastjóra.

[10:38]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Það er athyglisvert að Samfylkingin setti ekki vatnalögin á oddinn í samningaviðræðum fyrir myndun þessarar ríkisstjórnar og því er enn óvissa um afdrif þeirra. Eins mikilvægt og það er að þetta komi fram er líka mjög mikilvægt að halda áfram þeirri umræðu sem hófst hér í gær um laun seðlabankastjóra og hækkun þeirra. Tvískinnungur samfylkingarmanna í þeim efnum gekk gjörsamlega fram af mér og væntanlega fleirum. Hingað komu tveir hv. þingmenn Samfylkingarinnar í gær og fordæmdu í rauninni þá ákvörðun sem tekin var með fullu samþykki fulltrúa Samfylkingarinnar í bankaráði Seðlabankans um að hækka laun bankastjóra þar um 200 þús. kr. á mánuði í tveimur áföngum á árinu. Þetta kölluðu samfylkingarmenn í þinginu óhæfuverk sinna manna í bankastjórn Seðlabankans.

Það er nauðsynlegt, herra forseti, að það komi skýrt fram hér að um þessa hækkun launa til seðlabankastjóra var mikill ágreiningur í bankaráði Seðlabankans. Fulltrúi Vinstri grænna í bankaráðinu, Ragnar Arnalds, greiddi einn atkvæði gegn þessari hækkun. Þessi hækkun er pólitísk ákvörðun fyrst og fremst og hún verður ekki skrifuð á ábyrgð annarra en Samfylkingarinnar í bankaráði Seðlabankans ásamt með fulltrúum hinna flokkanna, Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Einnig þá á ábyrgð Samfylkingarinnar í ríkisstjórn því þetta dregur athygli að því, herra forseti, að kjarasamningar eru á næsta leiti og á sama tíma og menn býsnast yfir þessum launahækkunum segja þeir að þær megi ekki ganga út til annarra. Ég spyr: Hvar eru áformin um hækkun launa hjá umönnunarstéttum? Eða veit hægri höndin ekki hvað sú vinstri gjörir (Forseti hringir.) á stjórnarheimilinu?