134. löggjafarþing — 9. fundur,  13. júní 2007.

vatnalög – hækkun launa seðlabankastjóra.

[10:40]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég get ekki staðist freistinguna að tala aðeins um vatnalögin hérna fyrst það gefst tækifæri til. Ég á miklar minningar úr þessum ræðustóli frá síðasta kjörtímabili um þennan merkilega lagabálk frá 1923 sem breytt var. Sannleikurinn er sá að breytingin var eingöngu formlegs eðlis en ekki efnislegs. Þetta sagði ég ábyggilega 100 sinnum í umræðunni en stjórnarandstaðan sem þá var gat alls ekki verið sammála mér um það. Það er bara eins og lífið er.

En auðvitað vissi ég að engin ríkisstjórn færi að breyta þessu aftur í gamla farið og það mun þessi ríkisstjórn ekki gera, það er ég 100% viss um. Þarna var bara verið að nútímavæða gömul lög með eins og ég segi formbreytingu en ekki efnisbreytingu. Nú geta hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar sagt að yfirlýsingarnar eigi ekki við lengur, allar stóru yfirlýsingarnar sem komu á síðasta kjörtímabili í þessu máli og svo mörgum öðrum. Allt átti að gera og öllu átti að breyta en nú á þetta bara ekki við lengur. Þetta er svona einfalt.

Ég skal segja það, hæstv. forseti, að lokum að ég get ekki annað en skemmt mér svolítið yfir þessu og auðvitað veit ég að það kemur engin breyting á þessum lögum fram hjá nýju ríkisstjórninni.