134. löggjafarþing — 9. fundur,  13. júní 2007.

vatnalög – hækkun launa seðlabankastjóra.

[10:46]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Eftir því sem fleiri dagar þessa þings líða verð ég meira og meira undrandi. Ég vorkenni hinum meinlausa og hrekklausa hæstv. forsætisráðherra Geir H. Haarde, hversu grandalaus hann er þegar hann gengur til þessa samstarfs og kemur hér upp og hefur samið um nánast ekki nokkurn hlut enn þá við samstarfsflokkinn. Veit hæstv. forsætisráðherra ekki að Samfylkingin er samfylking fólks úr svo gjörsamlega ólíkum áttum? Það hefur sýnt sig í þinghaldinu að þau koma í dag til að rífast við ráðherra samstarfsflokksins um þetta mál, um annað mál á morgun þannig að þetta er óvarleg ferð, hæstv. forsætisráðherra, sem mér sýnist að ríkisstjórnin sé í. Ég held að það væri mikilvægt fyrir hæstv. forsætisráðherra að fara sem fyrst aftur með hæstv. utanríkisráðherra á Þingvöll til að rifja upp þá sælu daga í þinginu þar sem kemur í ljós að ekki hefur verið samið um neitt.

Samfylkingarþingmennirnir eru hver og einn með hina og þessa handsprengjuna í vösum sem þeir henda hiklaust á ráðherra Sjálfstæðisflokksins. Ég hef samúð með hæstv. forsætisráðherra við þessar aðstæður og ég sé auðvitað hér í þingsalnum að undir öllum þessum skelfingarræðum samfylkingarmannanna rísa hárin á höfðum margra sjálfstæðismanna sem hafa hár til þess að bera. Þetta er margslungið mál og það verður vissulega gaman þegar 1. nóvember rennur upp. Þá munum við flytja allar sýndarmennskuræðurnar sem samfylkingarmennirnir fluttu í vatnalögunum. Það er einhver merkilegasta umræða sem ég hef heyrt í þinginu, stóð vikum saman eins og (Forseti hringir.) að það væri verið að vinna vont verk. Ég bið hæstv. forsætisráðherra að gá að sér.