134. löggjafarþing — 9. fundur,  13. júní 2007.

vatnalög – hækkun launa seðlabankastjóra.

[10:51]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Það eru ekki allt stór mál sem stjórnarandstaðan hefur mestar áhyggjur af þessa dagana, hvort við notum gamlan eða nýjan texta í vatnalögunum, hvort það eru stafir fyrir aftan Ríkisútvarpið eða ekki. Það eru hins vegar tvö mál sem hafa verið nefnd í þessari umræðu sem eru stór og annað er Íbúðalánasjóður. Að því máli hefur verið unnið í þó nokkurn tíma til að leysa úr því, m.a. vegna kæru bankanna til ESA. Það var bara ekki komið að lokum þeirrar vinnu þegar komið var að kosningum og ég hef komið að þeirri vinnu með þremur félagsmálaráðherrum úr Framsóknarflokknum. Þeirri vinnu verður haldið áfram og á endanum mun komast góð og ásættanleg niðurstaða í það mál.

Hitt málið sem var nefnt eru hvalveiðarnar. Ég var dálítið hissa á því hvernig hv. þingmenn tóku þær inn í þessa umræðu eins og þær væru eitthvað sem hefði átt að semja um á milli ríkisstjórnarflokkanna. Ég held að hv. þingmenn séu búnir að gleyma á hvaða forsendum hefur verið unnið í hvalveiðimálum á undanförnum árum. Það er unnið á forsendum þingsályktunar frá Alþingi frá 1999. Hún var þingmannamál og það voru svo margir þingmenn á þeirri tillögu að ég man eiginlega ekki hvað þeir voru margir. Þeir muna það sem eru í salnum og voru á tillögunni, en ég man að 1. flutningsmaður var núverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra. Ég var einn af flutningsmönnum tillögunnar og það voru flutningsmenn úr öllum flokkum á þessari tillögu. Á grundvelli hennar hefur verið unnið og ég held að hv. þingmenn ættu að muna það að forsendurnar (Forseti hringir.) voru lagðar hér af hv. þingmönnum.