134. löggjafarþing — 9. fundur,  13. júní 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[11:04]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Það ætti öllum að vera ljóst að bæta þarf kjör aldraðra, sérstaklega þeirra sem hafa eingöngu lífeyri frá almannatryggingum. Stór hópur aldraðra, einkum konur, hefur lágar greiðslur úr almennum lífeyrissjóðum eða lágar atvinnutekjur og eru þessir einstaklingar í raun í fátæktargildru í dag vegna skerðingarreglna og tekjutenginga almannatrygginga. Þetta er staðreynd sem við stöndum frammi fyrir. Eftir langa stjórnarsetu Sjálfstæðisflokksins og áralanga réttindabaráttu allra lífeyrisþega, aldraðra sem öryrkja, hefur Sjálfstæðisflokkurinn nú viðurkennt að kjör lífeyrisþega verði að bæta og sett inn í stjórnarsáttmála kafla um bættan hag aldraðra og öryrkja.

Nú á stuttu sumarþingi vill ríkisstjórnin sýna á spilin og láta verkin tala með því að byrja á því að rétta hag þeirra sem eru 70 ára og eldri. Þeir einstaklingar eiga vissulega skilið að fá tækifæri til að vinna eftir því sem heilsan leyfir og án þess að skerða að miklum hluta lífeyrisgreiðslur almannatrygginga, en að leggja til að afnema að fullu frítekjumarkið hjá þessum hópi er stefna Sjálfstæðisflokksins. Hún leiðir ekki til meiri jöfnuðar eða til að bæta kjör þeirra sem verst eru settir, ellilífeyrisþega frá 67 ára aldri og öryrkja.

Sú leið sem ríkisstjórnin leggur til býr til nýjan hóp ellilífeyrisþega, lífeyrisþega sem verða á sérkjörum og gefur hinum efnuðustu í þessum hópi fullan rétt á óskertum lífeyrisgreiðslum almannatrygginga allt að 1,5 millj. kr. á ári. Um þessa leið sem fyrsta skref til að bæta kjör lífeyrisþega hefði þurft náið samráð Landssambands eldri borgara, Samtaka atvinnulífsins, Öryrkjabandalagsins og launþega. Það samráð fór ekki fram og er það miður.

Sú leið sem við í stjórnarandstöðunni hefðum valið er að hækka frítekjumark allra lífeyrisþega, þ.e. aldraðra og öryrkja, upp í 80 þús. kr. og draga úr skerðingum svo að rauntekjur lífeyrisþega hækki.

Hæstv. forseti. Það er vissulega tímabært og mikilvægt að ríkisstjórnin haldi áfram að vinna að bættum kjörum og horfi þá til allra lífeyrisþega, öryrkja og aldraðra, og hafi jafnræðisregluna að leiðarljósi.