134. löggjafarþing — 9. fundur,  13. júní 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[11:07]
Hlusta

Ásta Möller (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er komin til atkvæðagreiðslu eftir 2. umr. frumvarp til breytinga á lögum um almannatryggingar og lögum um málefni aldraðra þar sem lagt er til að atvinnutekjur þeirra sem eru 70 ára og eldri hafi hvorki áhrif á rétt lífeyrisþegans né maka hans til greiðslna frá almannatryggingum. Hér er verið að koma til móts við kröfur eldri borgara um að geta tekið virkan þátt í samfélaginu og bæta hag sinn félagslega, heilsufarslega og ekki síst fjárhagslega með því að stunda atvinnu án þess að það leiði til skerðingar á lífeyri almannatrygginga. Hér er tekið stórt og mikilvægt skref til hagsbóta fyrir eldri borgara og samfélagið allt. Þetta hefur verið mikið baráttumál fyrir samtök eldri borgara á ýmsum vettvangi.

Aðstæður eldri borgara eru afar mismunandi og hafa breytingar á lögum um almannatryggingar sem gerðar hafa verið á síðustu árum því mismunandi áhrif á kjör þeirra eftir því hvers eðlis þær eru. Verði þær breytingar sem hér eru til umræðu að lögum er gengið enn lengra en áður í að minnka tekjutengingar milli maka. Eftir 70 ára aldur munu atvinnutekjur maka ekki hafa áhrif á lífeyri almannatrygginga hins makans. Þessi breyting er til viðbótar minnkun á tekjutengingum milli maka sem samþykktar voru í desember sl. og taka að fullu gildi um næstu áramót, en frá næstu áramótum munu tekjur maka úr lífeyrissjóði ekki hafa nein áhrif á lífeyri hins makans úr almannatryggingum.

Stór skref hafa verið tekin til þess að bæta fjárhagslega stöðu eldri borgara á síðustu árum og missirum. Á síðasta ári var m.a. grunnlífeyrir almannatrygginga hækkaður. Þá var eignarskattur aflagður, tekjuskattur lækkaður og skattleysismörk hækkuð á síðasta kjörtímabili sem kemur þeim best sem eru með lægstar tekjur og ekki síst þeim sem eru eldri borgarar.

Frá árinu 2003 hefur skerðingarhlutfall lífeyris almannatrygginga vegna annarra tekna verið lækkað úr 67% í 39,95% um síðustu áramót og verður 38,5% um næstu áramót. Samkvæmt stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar verður þetta hlutfall lækkað í 35% á kjörtímabilinu.

Virðulegi forseti. Það frumvarp sem nú er til afgreiðslu er fyrsti liður af þremur er varða bættan hag eldri borgara sem stjórnarsáttmálinn segir til um. Horfa verður á öll þessi þrjú atriði sem eina heild. Í haust verður lagt fram frumvarp sem á að tryggja öllum lífeyrisþegum að lágmarki 25 þús. kr. úr lífeyrissjóði. Sú ráðstöfun varðar um þriðjung ellilífeyrisþega og beinist sérstaklega að því að bæta hag þeirra sem verst eru settir.

Virðulegi forseti. Hér er um mikið framfaramál að ræða sem mikilvægt er að styðja.