134. löggjafarþing — 9. fundur,  13. júní 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[11:17]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Þessi tillögugrein gengur út á að tryggja jöfnuð í hópi aldraðra. Með tillögu okkar eiga allir aldraðir, 67 ára og eldri, og örorkulífeyrisþegar að fá hærra frítekjumark, upp í 960 þús. kr. á ári. Þetta er einmitt það sem Samfylkingin gerði sérstaklega að umtalsefni, bæði fyrir kosningar og í kosningabaráttunni á síðasta þingi og því er ég mjög hissa á að Samfylkingin skuli nú fella tillögu sem hún flutti sjálf. Þetta vekur mikla furðu.

Af hverju í ósköpunum eru Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin að skilja hópinn 67 til 70 ára eftir? Það er sprækasta fólkið og ef gera ætti eitthvað fyrir eldri borgara þá er það sá hópur sem ætti að koma fyrst hvað varðar hækkun á frítekjumarki. En við viljum að frítekjumarkið hækki á allan hópinn, 67 ára og upp úr, en hér er verið að kljúfa hóp aldraðra tvennt, skilja stærsta hópinn eftir sem er 67 til 70 ára. Þetta vekur geysilega furðu, virðulegi forseti.