134. löggjafarþing — 9. fundur,  13. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[11:27]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er sjálfsagt að styðja þessa tillögu og í því felst tvíþættur stuðningur. Í fyrsta lagi við aðferðafræðina sem slíka, að það sé unnið samkvæmt framkvæmdaáætlun af þessu tagi, eða „handlingsplani“ eins og alsiða er annars staðar á Norðurlöndunum, og það er ágætis verklag, og í öðru lagi er innihald þessarar áætlunar ágætt. Þarna er mikið um falleg fyrirheit. Það er að vísu misskilningur hjá hæstv. viðskiptaráðherra að þetta sé allt saman komið til framkvæmda, að það sé orðin sú gerbreyting á högum barna og ungmenna sem hann talaði um áðan. Það vantar sem við á að éta, það vantar peningana. Og vonbrigðin eru auðvitað þau að ekkert hefur fengist upp gefið um hvaða fjármunir verða settir til þessara verkefna, þar á meðal ekki, sem er sérstakt áhyggjuefni, á hvern hátt eigi að gera sveitarfélögunum með fjármunum kleift að standa við sinn hlut málsins.

Ábyrgð þeirra sem flytja tillöguna er þar með fólgin í því að hér eru gefin mikil fyrirheit og vaktar miklar væntingar án þess að neitt sé í hendi um það í hvaða mæli menn reynast menn til að standa við þau. Það getur framtíðin ein skorið úr um.