134. löggjafarþing — 9. fundur,  13. júní 2007.

Stjórnarráð Íslands.

1. mál
[11:35]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Það er sorglegt að ekki skuli vera hægt að afgreiða þetta frumvarp til laga um breytingar á Stjórnarráði Íslands með samþykki þingmanna og þeirra þingflokka sem hér sitja. Það hefði verið hægt ef ekki hefði komið til þessi svokallaði laumufarþegi sem minnst var á áðan úr ræðustól, þ.e. 3. gr. frumvarpsins, sem er algerlega óviðkomandi öðrum breytingum á frumvarpinu þar sem verið er að afnema auglýsingaskylduna sem verkalýðsfélögin sem um þetta mál hafa fjallað, bæði BHM og BSRB, telja óviðunandi að sé gert.

Það eru þessi atriði sem valda því að við í Frjálslynda flokknum greiðum atkvæði gegn þeim breytingum sem verið er að leggja til varðandi 3. gr. og getum ekki stutt frumvarpið í heild.