134. löggjafarþing — 9. fundur,  13. júní 2007.

viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík.

13. mál
[11:47]
Hlusta

Frsm. meiri hluta iðnn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta iðnaðarnefndar um frumvarp til laga um lagagildi viðaukasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og Alcan Holdings Switzerland Ltd. um álbræðslu við Straumsvík.

Nefndin hefur fjallað mjög ítarlega um málið og fengið á sinn fund Guðrúnu Þorleifsdóttur, lögfræðing hjá iðnaðarráðuneytinu, og Guðjón Axel Guðjónsson, skrifstofustjóra hjá sama ráðuneyti. Auk þeirra komu líka á fund nefndarinnar Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar, og Már Sveinbjörnsson, hafnarstjóri þar í bæ, vegna þess að þessi samningur hefur að sjálfsögðu talsverð áhrif á Hafnarfjarðarbæ og Hafnarfjarðarhafnir.

Með frumvarpinu er lagt til að lögfestur verði samningur milli ríkisstjórnar Íslands og Alcans um álbræðslu í Straumsvík. Sú meginbreyting sem í samningnum felst er að frá og með 1. janúar 2005 lýtur Alcan íslenskum skattalögum eins og aðrir lögaðilar sem bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi. Breytingarnar eru settar fram í sjötta viðauka samningsins sem var undirritaður þann 5. mars sl. Iðnaðarráðherra undirritaði samninginn fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og að sjálfsögðu með fyrirvara um samþykki Alþingis og um það snýst málið hér.

Með bréfi, dagsettu 28. maí 2003, tilkynnti Alcan íslenska ríkinu að félagið kysi að lúta íslenskum lögum og reglum hvað varðar skattlagningu og greiðslu opinberra gjalda. Samkvæmt ákvæðum í aðalsamningnum hefði þessi breyting átt að öðlast gildi rúmum sex mánuðum síðar eða 1. janúar 2004 en þar sem viðræður milli aðila drógust á langinn og endanlegt samkomulag náðist ekki fyrr en í byrjun marsmánaðar 2007 náðist samkomulag um að miða við framangreint tímamark, þ.e. 1. janúar 2005.

Fram til þessa hefur Alcan greitt svonefnt framleiðslugjald sem hefur komið í stað tekjuskatts, eignarskatts, fasteignaskatts og fleiri skatta og gjalda en það verður nú afnumið með samþykkt frumvarpsins. Þann 16. nóvember 1995 var gerður samningur á milli ríkisins og Hafnarfjarðarbæjar frá 16. nóvember 1995 þar sem Hafnarfjarðarbær fær hlutdeild í framleiðslugjaldinu í stað fasteignaskatta frá Alcan beint. Sú breyting verður nú að um gjöld til Hafnarfjarðarbæjar fer að íslenskum lögum eins og segir í 5. gr. þess samnings. Hafnarfjarðarbær vakti athygli nefndarinnar á því að bæjarfélagið hefði gert ráð fyrir því að samið yrði frá 1. janúar 2004. Við upphaf samningsgerðar milli Alcans og ríkisins réðst Hafnarfjarðarbær í umfangsmikið mat á fasteignum á svæðinu til að mæta þeirri dagsetningu. Fulltrúar Hafnarfjarðarbæjar og bæjarstjóri Hafnarfjarðar sem komu fyrir nefndina greindu frá því að þeir mundu reyna að leita samninga við ríkið beint vegna greiðslna fyrir árið 2004 þó að samningsaðilar, Alcan og ríkið, hafi náð því samkomulagi að láta samninginn gilda frá 1. janúar árið 2005.

Virðulegi forseti. Það kom einnig upp ákveðið mál varðandi hafnirnar og það sem snýr að höfnunum í Hafnarfirði. Ræddi nefndin töluvert um þær breytingar sem gerðar verða með samningnum er lúta að gjaldi fyrir höfn og hafnarmannvirki. Um er að ræða 3. gr. samningsins sem er fylgiskjal með þessu frumvarpi. Nefndin fékk þær upplýsingar frá fulltrúum Hafnarfjarðarbæjar að skort hafi samráð við þá um gerð þessa samnings en samningurinn er eins og fyrr segir milli Alcans og ríkisins en hefur töluverð áhrif á Hafnarfjarðarbæ og Hafnarfjarðarhafnir. Ákvæði 3. gr. samningsins sem lögfestur verður með frumvarpinu felur í sér breytingu á 8. gr. aðalsamningsins, sem síðan er nánar útfært í 11. gr. hafnar- og lóðarsamningsins. Í þeim samningi er tekið fram að Alcan skuli greiða Hafnarfjarðarbæ sérstakt vörugjald fyrir allt ál sem flutt er út með skipi frá höfninni og skuli það jafngilda 0,1% af útflutningsverðmæti afurða sem tekur síðan mið af heimsmarkaðsverði áls. Þó sé ekki greitt af því sem er á milli 105 þús. og 175 þús. tonna af útflutningsverðmæti afurða þar sem sá hluti telst samkvæmt þessum hafnar- og lóðarsamningi vera greiddur fyrir fram. Það þýðir, virðulegi forseti, að verið er að greiða 0,1% af því sem er frá 0–105 þús. tonn og síðan aftur af því sem fer yfir 175 þús. tonn. Þessi samningur gildir til ársins 2014, hann var gerður árið 1997 og átti þá að gilda í 17 ár, þ.e. fyrirframgreiðslan.

Samningurinn er í gildi til ársins 2014 og um þetta var talsvert rætt, virðulegi forseti, vegna þess að það var álitamál hvort þessi 0,1% regla ætti að falla niður árið 2014 eða ekki. Nefndin fór talsvert ítarlega yfir það mál og hún skilur það svo að árið 2014 falli 0,1% reglan niður, þ.e. þegar samningurinn um viðbótarhafnarbakkann frá árinu 1997 fellur úr gildi. Það er skilningur nefndarinnar eftir samráð við iðnaðarráðuneytið að staðan árið 2014 verði þannig að búið verði að breyta aðalsamningnum og áðurnefndur hafnar- og lóðasamningur falli úr gildi það ár. Eftir standa þá í fyrsta lagi lögin eins og þau eru á þeim tíma og það sem stendur þá í aðalsamningi og í öðru lagi réttur Hafnarfjarðarbæjar til að semja um málið.

Virðulegi forseti. Í samningnum felst að við gildistöku hans munu allar sérreglur og undanþágur um skatta, tolla og gjöld sem gilda um starfsemi álversins falla niður. Frá og með gildistökunni ber Alcan að greiða tekjuskatt og önnur opinber gjöld sem almennt eru lögð á hér á landi, eftir þeim reglum sem um það munu gilda samkvæmt lögum á hverjum tíma. Þar með er Alcan að ganga inn í almennt skatta- og gjaldaumhverfi sem gildir hér á landi.

Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt.

Undir nefndarálitið rita ásamt þeirri sem hér stendur Kristján Þór Júlíusson, Bjarni Benediktsson, Guðni Ágústsson, Ragnheiður Elín Árnadóttir og Grétar Mar Jónsson.

Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir skilaði séráliti en að öðru leyti stóð nefndin saman að afgreiðslu málsins.