134. löggjafarþing — 9. fundur,  13. júní 2007.

viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík.

13. mál
[12:41]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Þar sem ég er líkast til síðasta jómfrúin á þessu sumarþingi, (Gripið fram í: Ekki alveg.) ekki alveg, ein af síðustu, ég þakka leiðréttinguna, þá þykir mér við hæfi að hafa nokkur orð um þetta mál sem ég átti hlut að að vinna ásamt hv. þingmönnum í iðnaðarnefnd.

Það hefur mikið farið fyrir því í umræðunni hér að hún kristallast í kringum sveitarfélagið Hafnarfjörð en hins vegar minna þeim orðum og áherslum sem í frumvarpinu eru sem lúta að því sem m.a. kom fram við 1. umr. málsins hjá hv. þingmönnum Sigurði Kára Kristjánssyni og Pétri H. Blöndal, sem hældu þessu frumvarpi í hástert, ekki síst fyrir það hversu skemmtileg staðfesting felst í frumvarpinu á því að íslenskum stjórnvöldum hefur á síðustu árum tekist að skapa fyrirtækjunum í landinu gott skattalegt umhverfi. Hv. þm. Pétur H. Blöndal gekk jafnvel svo langt í gleði sinni að líta á frumvarp þetta sem vottorð um það að íslenskt atvinnulíf byggi við samkeppnisfærar skatta- og eftirlitsreglur líkt og best gerðist í veröldinni og ég tek heils hugar undir þau orð hans.

Í áratugi hefur álbræðslan í Straumsvík verið undanþegin íslenskum lögum varðandi ýmis ákvæði sem á sama tíma hafa íþyngt íslenskum hlutafélögum. Nú ber svo við að Alcan óskar eftir því að losna undan samningsbundnum ívilnunum vegna álversins í Straumsvík og vill fá að starfa í sama skattalega umhverfi og önnur fyrirtæki á Íslandi. Því ber að fagna að hið almenna skattalega umhverfi sé orðið eftirsóttara en skattlagning á sérkjörum.

Á síðustu árum hafa íslensk fyrirtæki verið í harðnandi samkeppni við erlend fyrirtæki, bæði hér heima og heiman, og því er brýn þörf á að skattaumhverfi okkar sé hvort tveggja í senn stöðugt og örvi jafnframt atvinnulífið til frekari sóknar. Frumvarpið mun vissulega létta útgjöldum sem áður gengu til ríkissjóðs af álverinu í Straumsvík en að sama skapi fær fyrirtækið þá aukið svigrúm til athafna.

Sömuleiðis má gera ráð fyrir því að vinir Hafnarfjarðar um allt land muni einnig kætast við samþykkt og afgreiðslu þessa frumvarps. Fasteignaskattar af húseignum álverksmiðjunnar verða lagðir á og innheimtir og í bæjarsjóð þeirra Hafnfirðinga munu greiðslur vegna þessa aukast um u.þ.b. 100 millj. kr. á ári. Mér segir svo hugur að væntanlega verði bæjarfulltrúar í Hafnarfirði ekki í vandræðum með ráðstöfun á þessum viðbótartekjum til hagsbóta fyrir umbjóðendur sína.

Hitt er svo aftur annað mál hvernig þeir samningar sem eru grunnur þessa frumvarps hafa gengið. Eitt atriði vil ég þó nefna sérstaklega hér. Það er ljóst af viðtölum við gesti sem mættu á fund hv. iðnaðarnefndar við yfirferð málsins að bæjarstjórn Hafnarfjarðar þykir samráð við sveitarstjórnina hafa verið í lágmarki og er ástæða til að beina þeim eindregnu tilmælum til þeirra ríkisstofnana sem koma að vinnslu mála sem þessara að virða rétt sveitarstjórna til samningsgerðar varðandi verkefni og tekjustofna þeirra. Í máli sem þessu er bæði eðlilegt og sjálfsagt að sveitarfélagið sé frá upphafi samningaviðræðna fullgildur þátttakandi í ljósi þeirra miklu hagsmuna sem í húfi eru fyrir Hafnarfjarðarbæ.

Að lokum, virðulegi forseti, get ég ekki látið hjá líða að nefna áður en ég geng út í sumarið, ekki lengur jómfrú á hinu háa Alþingi, að upplifun mín á störfum þingsins á þessu sumarþingi hefur verið nokkuð einkennileg. Mér hefur þótt með ólíkindum oft og tíðum hversu þingmenn fara vítt um völl í umræðum um einstök mál. Af þessum stuttu kynnum hef ég sannfærst um gildi þeirra orða sem hæstv. forseti flutti þingheimi við upphaf sumarþings og lutu að því að koma betri skipan á störf og skipulag þingstarfa.