134. löggjafarþing — 9. fundur,  13. júní 2007.

viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík.

13. mál
[12:47]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst af öllu þakka þann heiður sem hv. þm. Gunnar Svavarsson, formaður fjárlaganefndar, sýnir þeim sem hér stendur að kalla eftir andsvari við það sem ég hafði fram að færa. Hann vekur hér að sjálfsögðu máls á ágætu og mjög mikilvægu umræðuefni í málefnum sveitarfélaga og samstarfi þeirra við ríkið.

Á sama hátt og ég geri ráð fyrir að forseti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar, Gunnar Svavarsson, vilji eiga þessar viðræður við forseta bæjarstjórnar Akureyrar, sem heitir Kristján Þór Júlíusson, þá dreg ég ekki í efa að varaformaður og formaður í hv. fjárlaganefnd muni eiga góða viðræðu og mjög efnismikla og árangursríka á komandi vetri um álitaefni í tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga.