134. löggjafarþing — 10. fundur,  13. júní 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[14:24]
Hlusta

Frsm. meiri hluta heilbrn. (Ásta Möller) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon verður að horfa á hlutina í samhengi. Hann hefur langt pólitískt minni, geri ég ráð fyrir, og eins og hann veit eru þrjú atriði í stjórnarsáttmálanum. Það eru þrír þættir sem snúa sérstaklega að hag aldraðra sem ríkisstjórnin mun beita sér fyrir. Þetta er fyrsta atriðið, varðandi atvinnutekjur þeirra sem eru 70 ára og eldri. Það varðar sem sagt þann hóp sem hefur tök á og vilja til að vinna. Næsti hópur sem verður tekið á er sá hópur sem hefur það kannski verst meðal aldraðra. Það eru þeir sem eru með lægstar lífeyrissjóðstekjur. Það er þriðjungur þeirra sem er með undir 25 þús. kr. tekjur frá lífeyrissjóðnum á mánuði eftir því sem þær upplýsingar sem við höfum í höndunum sýna. Síðan munum við fara í að lækka skerðingarmörkin úr tæplega 40% í 35%.

Aldraðir eru hópur sem býr við mjög ólíkar aðstæður. Sumir eru giftir en aðrir búa einir. Sumir hafa möguleika á að afla sér tekna gegnum atvinnu. Aðrir hafa lífeyrissjóðstekjur, mismunandi háar. Aðstæður fólks eru mjög mismunandi. Þær ákvarðanir sem eru teknar varðandi breytingar á lögum ná ekki endilega utan um alla þessa hópa.

Ef við horfum nokkur ár aftur í tímann, til ársins 2001, getum við rifjað upp að byrjað var á því að minnka tekjutengingu á milli hjóna. Árið 2002 gengum við lengra í því með samkomulagi sem þá var gert við aldraða. Við hækkuðum lífeyri allra og á síðasta ári var gengið enn þá lengra í því að minnka tekjutengingar á milli maka og vegna eigin tekna og lífeyrissjóðstekna.

Það sem mér fannst ekki síst athyglisvert varðandi það sem hv. þingmaður sagði var að honum fannst ekkert athugavert við að miða við einhvern tiltekinn aldur þar sem væri (Forseti hringir.) horft fram hjá atvinnutekjum. Ég spyr þá hv. þingmann: Við hvaða aldur vill hann miða? (Forseti hringir.)