134. löggjafarþing — 10. fundur,  13. júní 2007.

Almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[14:31]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekki viss um að það skipti öllu máli að snúa þessu upp í yfirheyrslu á mér um það hvar við teljum nákvæmlega að þessi mörk eigi að liggja. Ég opnaði bara á að það mætti skoða, enda væri það í samhengi við aðstöðu hópsins þar fyrir neðan. Það ankannalega við þetta mál er auðvitað að þarna kemur bil og það skiptir kannski ekki öllu máli hvort það eru þrjú ár eða fimm ár þar sem nánast stærsti hluti teknanna hverfur ef menn reyna að vinna. Þannig er ástandið vegna tekjutenginganna og þess að til viðbótar borga menn svo auðvitað skatt af slíkum tekjum. Þá verður ósköp lítið eftir eins og hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson hefur rækilega reynt að útskýra hér fyrir stjórnarliðinu en hefur kannski ekki alveg náð alla leið.

Það er þessi undarlega staða sem er búin til með þessu sem við sættum okkur náttúrlega mjög illa við. Þetta mál væri í allt öðru samhengi ef 80–100 þús. kr. frítekjumark gilti fyrir alla upp að einhverjum tilteknum aldursmörkum. En það sjá allir hversu fáránlegt það er fyrir fólk að vera að rembast við að reyna að vinna í þrjú eða þótt það væru fimm ár og fá sáralítið af því, laga stöðu sína nánast ekki neitt, en ef það svo verður nógu gamalt lagast það ef heilsan er ekki biluð þegar þar að kemur.

Þetta er ekki rétt nálgun að mínu mati. Það væri miklu gáfulegra að reyna að innleiða sveigjanleika í kerfið þannig að menn gætu trappað niður vinnu sína og notið góðs af þeim tekjum sem þó bætast við í hóflegum mæli strax frá því að þeir hafa lífeyristökurétt sem er breytilegur hjá ýmsum eins og við vitum. 67 ára mörkin eru þar ekkert heilög. Það er 95 ára regla hjá opinberum starfsmönnum og það eru fleiri breytilegar reglur um það hvenær menn geta hafið töku lífeyris og síðan kemur almenna reglan í almannatryggingakerfinu.

Það þarf að horfa á þetta allt í samhengi. Það er ríkisstjórnin ekki að gera hér. Það er byrjað á öfugum enda, eins og nú er búið að staðfesta rækilega af stjórnarliðinu sjálfu og það er ástæða til að þakka fyrir það, það var sem sagt forgangshópurinn (Forseti hringir.) sem ríkisstjórnin eða, les: á mannamáli, Sjálfstæðisflokkurinn valdi.