134. löggjafarþing — 10. fundur,  13. júní 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[14:35]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Tillögur stjórnarandstöðunnar frá því í haust tóku á málinu í heild. Þær voru tekjujafnandi vegna þess að í þeim fólst ekki síst umtalsverð hækkun grunnlífeyris og tekjutryggingar, hækkun vasapeninga og lækkuð skerðingarhlutföll. Við þurfum ekkert að skammast okkar fyrir okkar framlag að því leyti.

Það er sérkennilegt ef hv. þm. Pétur Blöndal hefur tekið að sér hér alveg sérstakt talsmannshlutverk fyrir jafnaðarstefnuna og ræðst á menn fyrir að vilja ekki hafa kerfið nógu tekjujafnandi. Ég held að við skiljum þetta alveg, hv. þingmaður, þannig að við þurfum í sjálfu sér ekki ókeypis námskeið frá hv. þingmanni til að átta okkur á því. En úr því að þessi mál eru á dagskrá flytjum við um það tillögur að fara frekar frítekjumarksleið en þessa undarlegu leið Sjálfstæðisflokksins.

Þegar hv. þingmaður talar hér fjálglega um að það eigi að nýta krafta og starfsgetu þessa fólks frá sjötugu, hvað vill hann gera við 67–70 ára hópinn? Á hann að fara heim og bíða í þrjú ár og koma svo aftur inn á vinnumarkaðinn? (Gripið fram í.) Auðvitað nær þetta ekki máli, frú forseti, þegar betur er að gáð. Þetta er mótsagnakenndur málflutningur.

Varðandi 25 þús. kr. greiðslur frá ríkinu í gegnum lífeyrissjóði til þeirra sem lakari eða engan lífeyrisrétt hafa, þ.e. að tryggja mönnum lífeyri upp að þeim mörkum, er það í sjálfu sér ágæt hugsun og sérstaklega hefði ég fagnað henni ef hún hefði tekið til öryrkja líka, ef hún tæki öryrkja inn í lífeyriskerfið í þeim skilningi að stefnt væri á að mynda fyrir þá lífeyrisrétt eins og aðra landsmenn. Þeir stefna í að verða eini hópurinn sem verður utan þess kerfis sem á réttindi í lífeyrissjóðum þegar starfsævinni lýkur. Það þarf að huga að því hvernig menn ætla að búa um þeirra mál til framtíðar.

En 25 þús. kallinn gerir lítið gagn að óbreyttum skattleysis- og skerðingarmörkum, hv. þm. Pétur Blöndal. Það er búið að sýna fram á það hér. Ég held að hv. þingmaður ætti að bíða með að hrósa sér mikið af því þangað til fyrir liggur hvort ríkisstjórnin ætlar þá að sjá til þess að menn fái þá peninga.