134. löggjafarþing — 10. fundur,  13. júní 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[14:42]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að flytja mjög langa ræðu um þetta mál. Það er búið að ræða það fram og til baka en þó er ýmislegt sem ástæða er til að staldra við, m.a. það að búið er að upplýsa úr þessum ræðustól að það sé skoðun fólks í Sjálfstæðisflokknum að þeir sem lakast eru settir séu þeir sem eiga minnst lífeyrisréttindi í lífeyrissjóði og geta ekki unnið. Ég er sammála þeirri skilgreiningu, ég held að hún sé rétt. Þegar ríkisstjórnin finnur upp á því að koma með tillögu um að koma peningum til þessa fólks til þess að bæta hag þess, hvaða aðferð er þá valin? Þá er valin sú leið að fara með viðbótarpeningana upp á 25 þús. kr. inn í lífeyrissjóðinn og greiða því þaðan út 25 þús. krónurnar án þess að orð sé sagt um að það eigi að búa til frítekjumark á þessar tekjur. Þetta þýðir á mannamáli að sá sem fær 10 þús. kr. í viðbót — (PHB: Alltaf vitað.) enda aldrei staðið til að bæta hag þeirra sem lakast eru settir. Nei, alltaf vitað. Sama hugsun og þegar menn komust að því miðað við orðin áðan að það hefði verið skoðað hverjir væru hættir að vinna og þá er sérstaklega settur inn farvegur fyrir þá. Það kostar minna. Þetta er stórmannlegt, hv. þm. Pétur Blöndal. Það sem menn eru hér að gera og tala um sem skrefið sem hefði þurft að stíga er það sem snýr að lífeyrisþegum sem eiga minni lífeyrisréttindi en 25 þús. kr. á mánuði. Það er einn þriðji af lífeyrisþegum, þ.e. þeim sem eru að fá réttindi til lífeyris. Þá hefði verið nokkurt fagnaðarefni ef hv. þingmenn og talsmenn Sjálfstæðisflokksins í tryggingamálum hefðu getað komið því út úr sér að það stæði til að búa til frítekjumark upp á 25 þús. kr. fyrir þessa lífeyrisþega þannig að þeir fengju þá þessa peninga (Gripið fram í.) til sín og borguðu bara af þeim þann skatt sem á að greiða á hverjum tíma sem er núna sami skattur og við borgum öll, þ.e. full tekjuskattsprósenta og útsvarsprósenta en ekki t.d. fjármagnstekjuskattur eins og margir hafa lagt til. (Gripið fram í.)

Þetta er framsetningin á þessu máli og hér er í raun og veru verið að útfæra lagfæringu fyrir þann hóp sem er ekki verst settur, það er búið að viðurkenna það í þessum ræðustól. Það er talað um að málið varðandi þá sem eru verst settir sé svo erfitt og flókið að það þurfi að byrja að ræða, og við hverja? Það á að byrja á að ræða við lífeyrissjóðina um það hvernig hægt sé að koma 10 þús. kalli inn í sjóðina og svo aftur út. Það þarf ekki að ræða innbyrðis um skerðingarreglurnar og skattana af þeirri krónutölu sem á að setja inn til að bæta. Það á áfram að vera svoleiðis að ríkið sé stærsti lífeyrisþeginn og fái mest til baka í þessari útfærslu. Þið hafið ekki sagt, hv. talsmenn Sjálfstæðisflokksins, að það stæði til að búa til frítekjumark á lífeyristekjur. Það hefur ekki verið sagt. Hvers vegna skyldi það vera, hv. þm. Pétur Blöndal? (PHB: Það kemur hátekjumönnum til góða.) Þetta er misskilningur, þetta er hins vegar frekar dýrt. (PHB: Nei, nei.) Það eru mjög margir lífeyrisþegar sem þurfa á þessu að halda. Þar er þörfin, þar er fjöldinn. (PHB: … háu tekjurnar.) Ekki háu tekjurnar, hv. þingmaður.

Ég verð að viðurkenna að ég er eiginlega að gefast upp á því að rökræða við hv. þm. Pétur H. Blöndal um lífeyrismál. Ég veit að hann hefur þetta sem trúarsetningu og ég sagði við hann í gær, með leyfi hæstv. forseta, að ég vonaði að hann gengi á guðs vegum. Ég meina það. (PHB: Hvers annars?)

Það sem verið er að gera núna, svo við tökum eitt dæmi af þessu sem núna liggur í spilunum, er að talað er um að ráðstafa um 700 millj., það er áætlað, þar til viðbótar eru svo 600 manns sem ekki hafa hirt um að sækja peningana sína í Tryggingastofnun, kannski vegna þess að þeir eru vel settir og þeim hefur ekki fundist þörf á því að sækja það litla sem þeir áttu rétt á miðað við þær útfærslur í skerðingarreglum sem eru til staðar. Ef þeir allir ákveða að nýta sér lögin eins og þau hafa verið sett þarf að láta út aðrar 780 millj. til að færa þeim sem hafa haft tekjur sem þeir hafa talið nægja sér til framfærslu og ekki hirt um að sinna þeirri viðbót sem þeir gátu fengið úr Tryggingastofnun. Ef það eru 1,3 millj. eru það 780 millj. á 600 manns sem fara til viðbótar. Þá er kostnaðurinn við þessa sérstöku tillögu ekki 700 millj. heldur tæpar 1.500 millj. og þá eru menn að velja það í forgang að setja 1.500 millj. inn í þessa leið eina og sér sem brýtur blað í útfærslu á tryggingamálum á Íslandi eins og þau hafa verið unnin á undanförnum árum. Við höfum stefnt að því að þegar settir væru fjármunir inn í tryggingakerfið værum við aðallega að bæta hag þeirra sem lakast væru settir og reyna að tryggja það með skerðingarreglum, útfærslum og frítekjumarki að þeir peningar lentu hjá þeim sem lakast væru settir Við værum ekkert endilega að bæta þá sem hafa 5 millj. í árslaun eða 10 millj. — en núna ætlum við að fara að gera það. Nú ætlum við að velja þann forgang. Þetta er algjört stílbrot á því sem allir flokkar hafa staðið að í tryggingamálum í áratugi. Menn hafa kannski deilt svolítið um leiðir en þetta er algjört stílbrot, hæstv. forseti, þannig að það er ekki skrýtið þó að menn horfi á þetta með þeim augum að það sé ekki beinlínis eftirsóknarverðasta skrefið að fara þessa leið enda hefur verið upplýst af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins í umræðunni að það væri annað sem væri betur til þess fallið að lagfæra stöðu þeirra sem lakast eru settir og það væri annað atriði sem lægi meira á. Þetta var valið og sennilega vegna þess að þetta var ályktun á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Og Samfylkingin var svo góðhjörtuð að ganga inn í ríkisstjórnina með því að taka við þessu loforði, gera það að sínu. Það hlýtur að vera niðurstaðan því að hingað til hefur Samfylkingin talað um að reyna að auka jafnræði og bæta hag þeirra sem lakar eru settir. Sá hefur verið málflutningur þingmanna Samfylkingarinnar fram að þessu.

Hæstv. forseti. Ég held að það þurfi ekki að ræða þetta mál miklu meira. Ég held að það blasi alveg skýrt við þjóðinni hvernig þetta liggur. Það er verið að taka upp nýja reglu, 5. eða 6. regluna við framkvæmd greiðslu bóta frá Tryggingastofnun og nú er verið að setja það í lög að allar atvinnutekjur þeirra sem eru 70 ára og eldri, hversu háar sem þær eru, hafi engin áhrif á neinar skerðingar á bótum frá Tryggingastofnun. Þar af leiðandi geta allir yfir sjötugt haft eins miklar tekjur og þeir vilja og fengið á aðra milljón á ári í viðbótargreiðslur frá Tryggingastofnun en þeir sem eru þar fyrir neðan skulu halda áfram í skerðingarreglunum, 40% skerðingarreglur frá Tryggingastofnun á öllum lífeyri niður í — (PHB: 24 þúsund.) og síðan áfram, hv. þingmaður.

Svo kemur skattkerfið þar til viðbótar, þetta er forgangsröðin. Mér finnst leitt að við skulum fara þessa leið í stað þess að velja þann forgangshóp sem sjálfstæðismenn sjálfir sögðu í þessum ræðustól fyrir stuttu síðan að væri vissulega sá hópur sem lakast væri settur. Ég hefði tekið þátt í því með sjálfstæðismönnum að reyna að lagfæra þá stöðu. (Gripið fram í.) Þessa útfærslu styð ég ekki.