134. löggjafarþing — 10. fundur,  13. júní 2007.

Stjórnarráð Íslands.

1. mál
[15:21]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Málsvörnin sem eftir stendur er Hagstofan. Afrekið er Hagstofan, það er að vísu rétt, það er rétt hjá hæstv. forsætisráðherra að hann er að vinna hér það tímamótaþrekvirki að slá af Hagstofuna sem ráðuneyti sem auðvitað hefur verið brandari manna á meðal lengi að hafa verið talin með ráðuneytum og enginn hefur í raun og veru litið á sem slíka. Menn hafa yfirleitt ekki talið að þeir gegndu ráðuneyti þó að Hagstofan heyrði undir þá.

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið hefur auðvitað verið eitt ráðuneyti í hugum manna langalengi. Það hefur ekkert verið annað á dagskrá við myndun ríkisstjórna aftur og aftur en að líta á það sem eitt ráðuneyti sem einn maður gegndi enda er það, sameinað undir einum manni, samt eitt minnsta ráðuneyti Stjórnarráðsins, fámennasta ráðuneyti Stjórnarráðsins.

Hin praktíska uppskipting þess á nýjan leik í tvennt vegur þá upp fækkunina af sameiningu landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytis. Eftir stendur Hagstofan. Það er ástæða til að óska hæstv. forsætisráðherra til hamingju með þetta þrekvirki og gott ef sér ekki bara á ráðherranum eftir það erfiði að slá af Hagstofuna sem ráðuneyti. Það er mikill árangur.

Ég held að hæstv. forætisráðherra sem hefur nú sýnt hér á spilin fyrstu dagana og vikurnar eftir myndun ríkisstjórnar sinnar ætti að fara varlega í að tala um að aðrir hafi stundað eitthvert prútt og prang við myndun ráðuneyta. Þó að vissulega hafi verið sviptingatímar í pólitík á árunum 1987, 1988 og fram yfir 1991 sem margt mætti um segja held ég að það þoli alveg skoðun borið saman við það sem hæstv. forsætisráðherra sjálfur ber nú ábyrgð á.