134. löggjafarþing — 10. fundur,  13. júní 2007.

Stjórnarráð Íslands.

1. mál
[15:32]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil við lokaumræðu um málið sem hér er á dagskrá, frumvarp til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands, fagna því að hæstv. forsætisráðherra skuli vera viðstaddur umræðuna. Hér fór fram ítarleg umræða um málið í gær og fram á kvöld eins og forsætisráðherra er væntanlega kunnugt um. Þá gat ég þess sérstaklega og fleiri að ráðherrar ríkisstjórnarinnar sýndu málefnum Stjórnarráðsins ótrúlegt tómlæti með því að vera fjarverandi alla þá miklu umræðu, 2. umr. um frumvarpið sem venju samkvæmt er meginumræðan um málið. Þess vegna er það fagnaðarefni að hæstv forsætisráðherra skuli vera hér. Jafnframt veldur það vonbrigðum að enginn ráðherra Samfylkingarinnar skuli vera til staðar undir þessari umræðu. Mér skildist á frú forseta, að gerðar hefðu verið ráðstafanir til að sækja staðgengil félagsmálaráðherra, hæstv. viðskiptaráðherra, og hann væri hér í húsinu. Það er örugglega liðinn hálftími síðan það var upplýst og ég hélt ekki að þetta hús væri svo stórt og mikið og gangar svo erfiðir að það tæki þetta langan tíma að komast í þingsalinn fyrir hæstv. viðskiptaráðherra.

(Forseti (ÁRJ): Forseti vill upplýsa hv. þingmann um að gerðar voru ráðstafanir til að fá hingað hæstv. viðskiptaráðherra til umræðunnar en hann var því miður upptekinn á fundi og hugðist koma hér um leið og tök væru á að hann kæmist af þeim fundi.)

Ég þakka forseta fyrir þessar upplýsingar. Engu að síður veldur það vonbrigðum að ráðherrar Samfylkingarinnar, sem eru sex talsins eins og kunnugt er, skuli allir kjósa að vera fjarri þessari umræðu og að mér sýnist líka hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson sem er varaformaður Samfylkingarinnar og gæti ef til vill hlaupið til og svarað fyrir flokkinn ef út í það er farið.

Ég ætla ekki að endurtaka þá umræðu sem hér fór fram í gær og í gærkvöldi. Það var ítarleg umræða um málið og þar komu fram mörg sjónarmið, m.a. ábendingar af minni hálfu sem ég vonast til að ríkisstjórnin íhugi vegna þess að í andsvari við ræðu minni við 1. umr. gat hæstv. forsætisráðherra þess að þar hefðu verið ýmsar ábendingar sem verðugt væri að skoða. Ég vonast til að það verði gert.

Hér komu fram nokkrar spurningar í gær, m.a. til hæstv. forsætisráðherra. Tilefnið var það að meiri hlutinn í allsherjarnefnd lagði til breytingar við frumvarpið þar sem kveðið er á um að forsætisráðherra skuli setja sérstakar reglur um auglýsingu starfa innan Stjórnarráðsins. Framsögumaður meiri hlutans, formaður allsherjarnefndar, hv. þm. Birgir Ármannsson, lét þess getið að forsætisráðherra mundi setja slíkar reglur ef breytingartillaga nefndarinnar yrði að veruleika.

Það var líka upplýst að óskað hefði verið eftir því að hæstv. forsætisráðherra kæmi á fund allsherjarnefndar þegar málið var þar til umræðu til þess að gera grein fyrir sjónarmiðum sínum varðandi auglýsingar starfa innan Stjórnarráðsins. Þess vegna lék mér forvitni á að vita hjá hæstv. forsætisráðherra hvert inntak slíkra reglna yrði sem hæstv. forsætisráðherra er þá ætlað að setja á grundvelli laganna samkvæmt breytingartillögunni og hvenær ráðherrann hyggst setja slíkar reglur.

Sömuleiðis hafði ég áhuga á að fá svör frá ráðherrum Samfylkingarinnar við þeirri spurningu sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur þegar borið fram við þessa umræðu, 3. umr., til ráðherra Samfylkingarinnar, í ljósi þeirra sjónarmiða sem komið hafa frá stéttarfélögunum, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og Bandalagi háskólamanna, við hinni umdeildu 3. gr. frumvarpsins um að fella niður auglýsingaskylduna.

Þá höfum við óskað eftir að fá svar, annaðhvort frá formanni Samfylkingarinnar eða staðgengli, félagsmálaráðherra sem ráðherra vinnumarkaðsmála eða staðgengli, eða einhverjum öðrum forustumönnum Samfylkingarinnar, við eftirfarandi spurningu: Boða þau vinnubrögð sem hér eru viðhöfð upphafið að samskiptamáta við stéttarfélögin sem núverandi ríkisstjórn með Samfylkinguna innan borðs hyggst ástunda?

Þetta eru spurningar sem mér finnst mikilvægt að fá svör við. Hér hafa komið fram sjónarmið þar sem dregið er í efa að niðurfelling auglýsingaskyldunnar muni sérstaklega bitna á konum en það eru þau sjónarmið sem sérstaklega er haldið fram í málatilbúnaði stéttarfélaganna. Þá hlýtur maður að spyrja sig að því: Telja þingmenn sem eru sömu skoðunar að það sé ekkert til í þeim sjónarmiðum og þeim málflutningi sem stéttarfélögin hafa uppi í þessu efni? Telja þeir þingmenn að stéttarfélögin vaði reyk í þessu efni?

Ég tel að svo sé ekki. Ég tel að stéttarfélögin viti giska vel hvað þau eru að tala um þegar þau tala um málefni eins og auglýsingar á störfum. Þetta eru stéttarfélög sem hafa unnið mikið og lengi og gott starf í þágu sinna starfsmanna og vita nákvæmlega hvað klukkan slær þegar þau tala um þessi atriði.