134. löggjafarþing — 10. fundur,  13. júní 2007.

kosning fimm manna og jafnmargra varamanna í landskjörstjórn til fyrsta þings eftir næstu almennar alþingiskosningar, að viðhafðri hlutfallskosningu, skv. 12. gr. laga nr. 24 16. maí 2000, um kosningar til Alþingis.

[16:22]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér á nú að fara að kjósa í nefndir og ráð og þar á meðal í landskjörstjórn og allar yfirkjörstjórnir kjördæmanna. Nú háttar svo til eins og menn vita að óvenjusterkur þingmeirihluti stendur að baki ríkisstjórnar og stjórnarandstaða er fáliðuð en samanstendur af þremur flokkum. Hlutföll leggjast þannig að ríkisstjórnarflokkarnir hafa þingstyrk til þess að ná fjórum mönnum af fimm í allar kjörstjórnir í landinu.

Því máli var hreyft við formenn þingflokka stjórnarliðsins að við þessar óvenjulegu aðstæður yrði kannski horft til þess að ástæða gæti verið til í þágu lýðræðis og valddreifingarsjónarmiða, í þágu þess að a.m.k. sem flestir flokkar gætu átt aðild að kjörstjórnum í landinu, til þess að hafa þar fulltrúa, fylgjast með og vera í aðstöðu til að leggja lóð sitt á vogarskálar þess að kosningar færu vel og lýðræðislega fram, að jafna hlutföllin. Það er skemmst frá því að segja að niðurstaðan af því varð sú að tilkynnt var að þingflokkar stjórnarliðsins væru ekki til viðtals um það að jafna eitthvað hlutföll, ekki einu sinni í kjörstjórnum í landinu.

Niðurstaðan er sú að stjórnarflokkarnir fá fjóra af fimm fulltrúum í allar kjörstjórnir kjördæmanna og í landskjörstjórn og eru þar af leiðandi heldur með yfirvigt en hitt ofan á hinn sterka meiri hluta í kjörstjórnunum, með fjóra af fimm, 80%, af fulltrúunum. Þetta er umhugsunarefni í ljósi þeirra aðstæðna sem hér eru uppi og í ljósi þess að a.m.k. í orði kveðnu hafa nú flestir flokkar uppi mikla lýðræðisást í málflutningi sínum og telja mikilvægt að tryggja framgang lýðræðisins og hafa skilning á þeim sjónarmiðum að í vissum tilvikum sé þessa gætt þegar ekki á nú einu sinni að þurfa að óttast að flokkspólitískur ágreiningur kalli á að hlutföllum sé fylgt til hins ýtrasta við skipan í nefndir eða stjórnir af þessu tagi. En þessa sér nú ekki stað, a.m.k. ekki í þessu tilviki.

Ég tel það nokkurt umhugsunarefni að á næsta kjörtímabili skuli þessir hlutir verða þannig að tveir af þremur flokkum sem eiga fulltrúa á Alþingi og eru í stjórnarandstöðu muni ekki eiga þess kost að eiga aðild að einu sinni kjörstjórnum í landinu.

Bæði ætti þá að hugleiða hvort ekki væri réttara að breyta lögum og tryggja að fulltrúar allra flokka ættu ætíð sæti í kjörstjórnum og/eða þá að reyna að stuðla að því að til valda komist þingmeirihluti á komandi árum sem hafi meiri skilning á grunnforsendum og (Forseti hringir.) mikilvægi lýðræðisins og fjölræðisins en þetta.