135. löggjafarþing — 2. fundur,  2. okt. 2007.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[20:13]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Forseti Alþingis. Góðir landsmenn. Þegar við komum nú saman til reglulegs þinghalds í haustbyrjun leyfi ég mér að vona að sumarið hafi verið okkur flestum ánægjulegt.

Ég vil í upphafi máls míns gera athugasemdir við eins og þrennt í ræðu hæstv. forsætisráðherra áðan. Ég ætla að halda aftur af mér með að gefa henni einkunn að öðru leyti en því að segja að ekki var þetta nein „fjallræða“, enda mun Stjórnarráðshúsið við Lækjargötu, þar sem þetta hefur væntanlega verið barið saman, vera í innan við 10 metra hæð yfir sjó og það breytist ekki þó að nýr húsbóndi þar láti flagga fram í brúnamyrkur sum kvöld.

Í fyrsta lagi fullyrðir forsætisráðherra hér í ræðu sinni að sú þensla sem einkennt hafi íslenskt efnahagslíf síðustu tvö, þrjú árin sé á undanhaldi og að fram undan sé tímabil aukins stöðugleika og meira jafnvægis í þjóðarbúskapnum.

Ég geri athugasemd við þessa fullyrðingu: Ég óttast að hún sé efnislega og beinlínis röng. Sjálft fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir þenslu og viðskiptahalla næstu árin og er þó hvorki í forsendum þess gert ráð fyrir neinum stóriðjuframkvæmdum né áhrifum kjarasamninga.

Í öðru lagi segir forsætisráðherra að ríkisstjórnin stefni að frekari lækkun skatta á einstaklinga á kjörtímabilinu, m.a. með hækkun persónuafsláttar.

Hverju sætir þá að persónufrádráttur á aðeins að hækka um 4,8% samkvæmt fjárlagafrumvarpinu, sem sagt vonandi halda í við verðlagsþróun en ekki einu sinni áætlaða hvað þá líklega launaþróun? Var þetta boðað í kosningabaráttunni af hálfu Samfylkingarinnar, að það ætti að halda áfram óbreyttri stefnu fyrrverandi ríkisstjórnar um að læða skattahækkunum aftan að lágtekjufólki með þessum lymskufulla hætti? Og má ég í framhjáhlaupi spyrja: Hverju sætir að ekki stendur til samkvæmt sama fjárlagafrumvarpi að gera eiginlega neitt í viðbót fyrir aldraða og öryrkja umfram það sem fyrri ríkisstjórn var búin að lofa og í mörgum tilvikum beinlínis semja um? Hvar er myndarlegt átak í fjárlagafrumvarpinu gagnvart fíkniefnavánni sem við stöndum frammi fyrir? Hvað með biðlistana?

Í þriðja lagi fjallaði forsætisráðherra hér um aðgerðir til að gera samskipti almennings og stjórnvalda greiðari og skilvirkari og nefndi fækkun ráðuneyta í því sambandi. Það er nefnilega það. Hefur ráðherrunum fækkað? 1, 2, 3, 4, 5, 6, 7, 8, 9, 10, 11, 12. Nei, ekki sé ég það. Það er að vísu þannig að ríkisstjórnin ætlar að leggja landbúnaðarráðuneytið niður að því er virðist en hún skipti í staðinn upp einu minnsta ráðuneyti Stjórnarráðsins, iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu, og þar sitja þeir nú hálfdrættingarnir, Össur Skarphéðinsson og Björgvin Sigurðsson, af því að Samfylkingin varð að fá jafnmarga stóla og Sjálfstæðisflokkurinn, svona að nafninu til.

Nei, hin frjálslynda, umburðarlynda jafnaðarmannaumbótastjórn eða hvað hún kallar sig svo hátíðlega á stundum, milli þess sem hún kennir sig við gliðnunar- og sprungusvæðið Þingvelli, hefur nú haft meira en fjóra mánuði til að sýna frjálslyndi sitt og umbótavilja í verki. Og hvernig hefur það gengið? Tökum fyrst ótíðindin sem vorskýrsla Hafrannsóknastofnunar færði okkur um ástand þorskstofnsins og horfur með hann. Við vinstri græn tókum það strax fram að það yrði að horfast af ábyrgð í augu við þau alvarlegu tíðindi og hafa varúðarsjónarmið að leiðarljósi hvað varðaði ákvörðun um afla en við sögðum um leið: Það á að horfast í augu við að kvótakerfið hefur brugðist, það hefur ekki náð því meginmarkmiði sínu að vernda og byggja upp þorskstofninn. Við gagnrýnum ríkisstjórnina fyrir að horfast ekki í augu við að kerfið er hrunið í óbreyttri mynd sinni. Það er fjær því en nokkru sinni að ná því markmiði sínu að byggja upp mikilvægasta nytjastofn Íslandsmiða — þorskinn. Við lýsum okkur reiðubúin til þverpólitísks samstarfs um endurskoðun kerfisins en við höfnum því að taka þátt í einhverri sýndarmennsku eða yfirklóri til að fegra óbreytt ástand.

Og þá að hinum svokölluðu mótvægisaðgerðum við þessu áfalli, því höggi sem niðurskurður þorskkvótans auðvitað er. Þar hefur ríkisstjórnin unnið ákaflega slælega. Fyrst þjófstörtuðu einstakir ráðherrar og eyrnamerktu nánast allt milli himins og jarðar sem mótvægisaðgerðir. Því má auðvitað spyrja: Stóð ekki til að gera neitt að ráði í samgöngumálum, fjarskiptamálum og menntamálum á landsbyggðinni? Átti ekki einu sinni að mála opinberar byggingar á landsbyggðinni nema vegna þess að draga þurfti saman þorskveiðar? Þurfti þess þá allt í einu?

Eftir óvissu í allt sumar átti svo að heita að pakkinn væri kominn saman og ríkisstjórninni tókst, þrátt fyrir að koma þessu upp í 10 milljarða eða þar um bil á þremur árum, að gleyma í öllum aðalatriðum þeim sem sannarlega fá þetta högg beint í andlitið, þ.e. sjómönnum, fiskverkafólki og sjávarbyggðunum og sveitarfélögunum sem í hlut eiga.

Sérstaka athygli hlýtur að vekja hversu rýr hlutur sveitarfélaganna er í þessu og áttu þó einmitt sveitarfélögin á landsbyggðinni og við sjávarsíðuna í ærnum erfiðleikum fyrir. Og ekki veit nú vinstri höndin mikið um það sem sú hægri gjörir. Það á að heita svo að mótvægisaðgerðirnar séu viðleitni til að koma til móts við byggðarlögin og íbúana og hjálpa þeim til að takast á við erfiðleikana með því að bæta búsetuskilyrðin á viðkomandi svæðum en í hinu orðinu er farið að veifa peningum ef fólk vill flytja burt. Það er meira samræmið.

Víkjum þá að öðru sem ætti að vera viðfangsefni ríkisstjórnarinnar. Það eru aðgerðir gagnvart jafnvægisleysi í hagkerfinu og þau brýnu hagstjórnarverkefni sem því miður bæði fyrrverandi og núverandi ríkisstjórn hafa svikist um að takast á við.

Ný ríkisstjórn hefur misst af því gullna tækifæri sem hún fékk í vöggugjöf, að senda sterk skilaboð út í samfélagið, út í efnahagslífið, um að nú yrði tekið á málum. Því miður hafa engin slík skilaboð komið frá þessari ríkisstjórn og þvert á móti oft þannig að stóriðjuhagkerfið á að fá stóraukið eldsneyti, stóraukið fóður á næstu árum í formi tveggja, þriggja, fjögurra, fimm nýrra stóriðjuverkefna sem undirbúin eru af fullum krafti og Seðlabankinn og ríkisstjórn róa áfram sitt í hvora áttina. Eða hvert var innlegg hæstv. utanríkisráðherra í það mál á fundi á dögunum? Jú, það var sagt að peningamálastefna eða stjórn Seðlabankans virkaði ekki sem skyldi og hana þyrfti að endurskoða. Þetta er fína stuðningsyfirlýsingin við viðleitni Seðlabankans frá öðrum stjórnarflokknum, er það ekki? Gott að vita þetta. En starfar ekki Seðlabankinn enn þá samkvæmt sameiginlegri yfirlýsingu ríkisstjórnar og bankans frá 27. mars 2001 um verðbólguviðmið sem ný ríkisstjórn hefur ekki hróflað við, ekki fært úr gildi? Til hvers er hæstv. utanríkisráðherra að vísa?

Eða framlag viðskiptaráðherra sem fer hamförum í lýsingum sínum á því hve gjaldmiðillinn sé ónýtur og krónan okkur dýr? Ráðherrann talar krónuna niður eins og hann lífsins mögulega getur. (Gripið fram í.) Já, sem betur fer tekur markaðurinn ekkert mark á honum, en talið er jafnvitlaust samt.

Hvernig ætlar ríkisstjórnin að hafa þetta með gjaldmiðilinn? Ætlar hún að koma sér upp stefnu í málinu eða eiga ráðherrar að tala áfram hver með sínu nefi? Hvað segir fjármálaráðherra? Telur hann að krónan sé ónýt og kosti þjóðina 70 milljarða? Hvað segir forsætisráðherra? Er hann ekki enn þá yfirmaður efnahagsmála og á að fara með og samræma þau mál eða liggur sú starfsemi kannski niðri? Er verið að undirbúa flutning á henni um næstu áramót? Er verið að pakka hagstjórninni niður í kassa svo hún þoli flutninginn? Er hún óvirk þess vegna? Ég held að hæstv. ríkisstjórn verði að fara að gera grein fyrir því hvort hún ætlar yfir höfuð að hafa einhverja stefnu í þessum efnum vegna þess að andvaraleysi ríkisstjórnarinnar og skortur á trúverðugleika í efnahagsmálum er ekki bara gagnrýnivert, það er stórhættulegt. Við verðum, Íslendingar, að ná jafnvægi, endurheimta stöðugleika, ná niður vöxtum, stöðva viðskiptahalla og erlenda skuldasöfnun. Það eru hagstjórnarmistökin og erlendu skuldirnar sem eru að grafa undan gjaldmiðlinum miklu frekar en smæð hans. Stöðva þarf frekari stóriðjufjárfestingar, slá þannig á þensluna, og á meðan fær náttúran grið og hægt er að fara í þær friðlýsingaraðgerðir sem ráðast þarf í. Kalla þarf til víðtæks samstarfs í öllum þjóðarbúskapnum í anda þjóðarsáttar milli ríkis, aðila vinnumarkaðar og helstu hagsmuna- og almannasamtaka. Mjög sennilega þarf að styrkja áfram Seðlabankann og stækka gjaldeyrisforðann verulega, ekki síst í ljósi gríðarlega ört vaxandi erlendra skammtímaskulda þjóðarbúsins. Það þarf markvissar aðgerðir, ekki hálfkák, til að draga úr misvæginu í byggðamálum vegna þess að misgengið milli þenslusvæðanna og samdráttarsvæðanna innan lands er hluti vandans, einnig í hagstjórnarlegu tilliti. Leggja þarf af það blekkingartal að það geti á einhvern hátt verið lausn bráðavandans að kasta krónunni og taka upp evru. Reyndar væri upptaka evru við núverandi aðstæður í efnahagsmálum eins og bensín á bál. Hver sem framtíð krónunnar verður til lengri tíma litið er alveg ljóst að hún verður gjaldmiðill okkar um mörg næstu ár og það að tala hana niður getur aldrei orðið annað en til bölvunar. Þó að við tækjum ákvörðun á morgun um að ganga í ESB tæki það ferli mörg ár og við þyrftum hvort sem er að ná stöðugleika í efnahagsmálum til að uppfylla inngönguskilyrðin og við yrðum að notast við krónuna á meðan. Þetta eru allt staðreyndir sem ráðherrar Samfylkingarinnar þurfa að kynna sér og viðurkenna áður en þeir hætta sér út í umræður um gjaldeyris- og efnahagsmál.

Það er dapurlegt að horfa upp á tvískinnung ríkisstjórnarinnar á sviði umhverfismála. Það er dapurlegt að ríkisstjórnin skuli engan lit sýna í nýju fjárlagafrumvarpi um að takast á við ört vaxandi misskiptingu gæðanna í okkar samfélagi. Og það er dapurlegt að það skuli engin stefnubreyting vera að verða í utanríkismálum þar sem helsta nýmælið er stóraukin nýtilkomin útgjöld til hernaðarmála í fjárlagafrumvarpinu. Hið nýja framlag Samfylkingarinnar er að fara fram á frá þjóðinni hátt í einn og hálfan milljarð kr. til hernaðarútgjalda.

Góðir landsmenn. Heimsfréttirnar minna okkur Íslendinga á það svo til á hverjum einasta degi hversu gæfusöm við erum þrátt fyrir allt að eiga okkar friðsama samfélag, okkar fallega land, okkar ríkulegu auðlindir til lands og sjávar til umsjónar, varðveislu og nota. Hér eru um flest kjöraðstæður til að byggja lýðræðislegt og farsælt velferðarsamfélag en við þurfum þá líka að gæta þess að okkur beri ekki af leið, að við bregðumst ekki gæslumannshlutverki okkar gagnvart landinu, að við slítum ekki í sundur friðinn í samfélaginu með stóraukinni misskiptingu og misrétti, að við gerum ekki blinda og skammsýna græðgi að æðsta boðorði í samfélaginu, að við rífum ekki upp rætur okkar, glötum ekki tungu okkar og menningararfi í stormum hins hnattvædda samtíma. — Ég þakka þeim sem hlýddu.