135. löggjafarþing — 2. fundur,  2. okt. 2007.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:01]
Hlusta

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Góðir áheyrendur. Kraftmikið efnahagslíf, öflug velferðarþjónusta og aukin samkeppnishæfni atvinnulífsins eru meðal markmiða ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar og það er spennandi að fá að vera þátttakandi í því metnaðarfulla verkefni.

Styrkur og kraftur íslensks efnahagslífs birtist í dag í öflugu atvinnulífi, nægum atvinnutækifærum og vaxandi kaupmætti enda eru lífskjör á Íslandi og almenn lífsgæði með því besta sem gerist. Hins vegar er okkur öllum ljóst að nú sverfur að sumum sjávarbyggðum vegna niðurskurðar þorskaflaheimilda. Ríkisstjórnin hefur kynnt mótvægisaðgerðir sínar sem fela í sér að 6,5 milljörðum verður varið til fjölmargra nýrra verkefna, m.a. til þess að efla atvinnulífið, auka menntun og koma til móts við sjávarútvegsfyrirtækin á einn eða annan hátt. Þar til viðbótar verður framkvæmdum flýtt fyrir ríflega 4 milljarða kr. Þessum aðgerðum er hægt að beita nú vegna styrks og krafts í íslensku efnahagslífi. Því verður ekki haldið fram hér að þessar aðgerðir komi í staðinn fyrir 60 þús. tonna þorskafla en ríkisstjórnin mun væntanlega áfram leita leiða til að styrkja enn frekar þær sjávarbyggðir sem verst verða úti vegna niðurskurðarins.

Hæstv. forseti. Framlagt fjárlagafrumvarp fyrir árið 2008 sýnir trausta afkomu ríkissjóðs það árið og næstu fjögur og þar með forsendur til frekari skattalækkana. Lækkun skattbyrða hvort heldur er á einstaklinga eða fyrirtæki er ígildi vítamínsprautu í hagkerfið og samfélagið allt og þar með aukast lífsgæðin á Íslandi enn frekar.

Það hefur sýnt sig á undanförnum árum að frumkvæði, kraftur og áræði íslensks athafnafólks blómstrar í hagstæðu skatta- og rekstrarumhverfi og því þarf stöðugt að leita leiða til að styrkja það enn frekar. Það er hlutverk stjórnmálamanna að skapa umgerðina utan um atvinnulífið þannig að það blómstri og þá spretta fram hugmyndir og nýir vaxtarsprotar. Glöggt má sjá í nýju umhverfi frelsis til athafna og verka hvernig t.d. hátæknifyrirtækin hafa dafnað og á hvern hátt háskólasamfélagið hefur tekið stakkaskiptum. Þar blómstra nýir einkareknir háskólar og ríkisreknu háskólarnir tóku kipp vegna samkeppninnar. Hæstv. menntamálaráðherra á hrós skilið fyrir framsýni og kjark á þeim vettvangi.

Verkefni á sviði menntamála eru óþrjótandi, menntun er forsenda framfara og á þessu þingi verða lögð fram frumvörp til laga um tónlistarskóla og þriggja skólastiga, leik-, grunn- og framhaldsskóla, og með þeim er mótaður heildstæður grunnur menntunar barna og ungmenna frá upphafi skólagöngu til framhaldsskóla. Menntun er forsenda framfara. Því er áhersla á menntun sem og ítarleg aðgerðaáætlun í þágu barna og ungmenna sett í sérstakan forgang á næstu árum og er það vel.

Hæstv. forseti. Ríkisstjórnin ætlar að gera gott heilbrigðiskerfi enn betra og leggja sömuleiðis áherslu á forvarnir og heilbrigðisvæðingu þjóðarinnar almennt. Ég fagna slíkum markmiðum en ekki síður fagna ég því sem fram kemur í stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra um fjölbreytilegra rekstrarform í heilbrigðisþjónustunni. Það er sátt í okkar samfélagi og í íslenskum stjórnmálum um að skattfé okkar sé varið til að halda úti öflugu velferðarkerfi og á því verður engin breyting.

Hæstv. forseti og ágætu áheyrendur. Við verjum miklum fjármunum í íslenskt heilbrigðiskerfi og þá fjármuni verður að nýta eins vel og kostur er. Það gerum við best með því að auka fjölbreytileika í vali á þjónustunni. Við þurfum í þessum málaflokki sem öðrum að vera opin fyrir nýjum leiðum og hugmyndum en ekki síður að hafa kjark og áræði til að hrinda þeim í framkvæmd til hagsbóta fyrir alla landsmenn. Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur kjark og áræði og hann mun leiða breytingar í heilbrigðiskerfinu og þjónustunni inn á nýjar brautir landsmönnum öllum til heilla.

Herra forseti. Á vorþingi voru tekin fyrstu skref af mörgum sem styrkja stöðu eldri borgara í landinu. Einföldun almannatryggingakerfisins er löngu tímabær og hugmyndir þar að lútandi liggja á borðinu og eru til þess fallnar að efla þjónustu og gera hana skilvirkari. Samspil skatta, tryggingabóta, greiðslna úr lífeyrissjóðum og atvinnutekna einstaklinga þarf að skoða til að tryggja meiri sanngirni og ekki síður til að hvetja til tekjuöflunar.

Herra forseti. Í dag skarast verkefni ríkis og sveitarfélaga m.a. í öldrunarmálum. Því þarf að breyta og gefa sveitarfélögum tækifæri til að taka við þeim málaflokki ásamt heilsugæslunni. Þeirra yrði síðan að tryggja samhæfða og skilvirka þjónustu. Öldrunarþjónustan er nærþjónusta og hana eiga að veita þeir sem gleggst þekkja til. Sveitarfélögin hafa sýnt að þau eru óhrædd að fara ótroðnar slóðir og leita nýjunga í uppbyggingu og rekstri sem gæti nýst í öldrunarþjónustu sem og öðru.

Hæstv. forseti. Góðir áheyrendur. Ísland er land tækifæranna og öflug ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar fer þar í fylkingarbrjósti landsmönnum öllum til heilla.