135. löggjafarþing — 2. fundur,  2. okt. 2007.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:27]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Hæstv. forseti. Góðir Íslendingar. Ég tek undir þau orð formanns Framsóknarflokksins að það er verulega til bóta að hér skuli vera kominn íslenski þjóðfáninn og að Alþingi skuli tala þá undir þeim gunnfána sem, eins og formaður Framsóknarflokksins sagði, hefur fært okkur svo marga sigra.

Hér höfum við hlustað á talsmenn ríkisstjórnarinnar færa fram allt það góða sem ríkisstjórnin ætlar sér að gera, þá miklu hluti sem felast í því sem á að gera og það er spurningin um hvort það sé ekki eitthvað sem geti verið í farangrinum þegar um er að ræða 430 milljarða kr. ríkisútgjöld eins og boðað er í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Að sjálfsögðu eru þar margir góðir gjafapakkar en það er ekki spurningin um það með hvaða hætti eða hvernig, heldur hvernig er forgangsraðað, hvaða verkefni eru tekin og hvaða verkefnum sleppt. Og það eru þau atriði sem við skulum aðeins huga að og skoða.

Við búum við góðæri og í góðæri er svigrúm til að gera marga góða hluti. Og þá spyr ég: Ætlar ríkisstjórnin að breyta skattareglum eins og svigrúm er til? Ætlar ríkisstjórnin að taka á þeim ofurtekjum sem eru að myndast í þjóðfélaginu? Ætlar ríkisstjórnin að hagræða fyrir fátækasta fólkið í landinu? Svarið er nei. Ríkisstjórnin ætlar ekki að gera það.

Ætlar ríkisstjórnin að hækka skattleysismörk? Svarið er nei. Á að afnema skerðingar á bótum til aldraðra og öryrkja? Svarið er nei. Ríkisstjórnin hefur hins vegar ákveðið að fella niður veiðileyfagjald fyrir kvótagreifa, færa þeim 500 millj. á silfurfati. Það er það sem ríkisstjórnin gerir aðallega í velferðarmálum.

Formaður Framsóknarflokksins talaði um að hann væri sammála þeim sem teldu að skattalækkanir væru ávísun á verðbólgu og þenslu. Það er spurningin alltaf um það hvaða skattalækkanir, hvernig og gagnvart hverjum þær beinast. Það er ekki fátækasta fólkið í landinu sem á vart fyrir því að lifa mannsæmandi lífskjörum sem skapar þensluna í þessu þjóðfélagi. Það eru aðrir sem valda því. Við í Frjálslynda flokknum teljum að það megi og að það sé svigrúm til verulegra skattalækkana með því að hækka skattleysismörk í 150 þús. kr. og höfum flutt tillögu til breytinga á lögum hvað það varðar. Við teljum líka að það sé svigrúm til þess að afnema skerðingarákvæði gagnvart öldruðum og við höfum líka flutt breytingartillögu á lögum hvað það varðar. Þetta svigrúm er fyrir hendi og mun meira til hjálpar fátækasta fólkinu í landinu, til hjálpar því fólki sem hefur minnst fyrir sig að leggja. Þær breytingar munu ekki valda aukinni verðbólgu, þær munu ekki valda aukinni þenslu, þær munu valda því að okkar minnstu bræður geta búið við mannsæmandi lífskjör.

Það var misskilningur hjá talsmanni Samfylkingarinnar hér áðan þegar hún talaði um að Samfylkingin hefði sett sitt velferðarmark á þessa ríkisstjórn. Staðreyndin er einfaldlega sú að Samfylkingin hefur ekki sett neitt mark á þessa ríkisstjórn sem lýsir sér skýrast í því að það á ekki að lagfæra skattareglur gagnvart þeim sem mest þurfa á að halda, þeim sem velferðin þarf að koma til aðstoðar. Það er sá boðskapur sem Samfylkingin er ásamt Sjálfstæðisflokknum að setja fram í þessu þjóðfélagi.

Það er þensla í þjóðfélaginu og forsætisráðherra varð tíðrætt um hana. Þenslan veldur því að ríkistekjur aukast, ríkissjóður bólgnar út. Það er hægt að gera marga góða hluti en þá reynir á. Það verður að taka á þeim málum sem þarf að taka á til að ekki verði slík ofurþensla í þjóðfélaginu að ekki verði við neitt ráðið. En af hverju er þessi þensla? Hún er vegna þess að við erum að flytja inn hundruð milljarða af dýru lánsfé. Á móti erum við að flytja út háa vexti sem ná nú yfir 30% af öllum útflutningsverðmætum Íslendinga. Hve lengi ætlum við að halda þenslunni áfram með þessum hætti? Við erum að flytja inn útlendinga, 15 þús. manns á þessu ári skráð. Hvað eru margir óskráðir? Mér skilst að 1.700 hafi komið í ljós í dag. Þessi hópur veldur þenslu.

Það er gríðarlegur viðskiptahalli. Stjórnmálaskörungurinn Kåre Willoch, sem var á sínum tíma formaður systurflokks Sjálfstæðisflokksins, Høire partiet í Noregi, formaður norska vinnuveitendasambandsins og forsætisráðherra um langt árabil, sagði 1988, með leyfi forseta: „Innflytjendur valda aukinni þenslu en leysa hana ekki.“ Hann var spurður að því um daginn, fyrir nokkrum dögum, hvort hann væri sama sinnis nú og hann sagði: Já, þetta hefur komið berlega í ljós.

Ríkisstjórnin leggur nú fram fjárlagafrumvarp þar sem lögð er til aukning ríkisútgjalda um allt að 20% miðað við fjárlagafrumvarp fyrir árið 2007. Ríkisstjórnin segist vera frjálslynd umbótastjórn en hvað mundi frjálslynd umbótastjórn gera sem þessi ríkisstjórn er ekki að gera? Hún mundi forgangsraða fyrir fólk, draga úr ríkisútgjöldum og koma í veg fyrir okursamfélagið sem við búum við í dag. Í hverju felst okursamfélag? Við erum með hæsta matvælaverð í heimi. Við erum með dýrustu lyf í heimi og við erum með óhagstæðustu lánakjör sem þekkjast í nágrannalöndum okkar. Frjálslynd umbótastjórn mundi koma í veg fyrir þessa hluti. Þess í stað ætlar ríkisstjórnin að hella olíu á eldinn. Hún boðar 20% hækkun fjárlaga miðað við það sem boðað var þegar fjárlagafrumvarp var flutt fyrir einu ári. Þá var tillaga um að ríkisútgjöld væru 357 milljarðar en þeir eru 430 núna. Ríkisstjórnin segir hins vegar í því sem er dreift til þingmanna að um 8% aukningu sé að ræða. Raunin er sú að þegar þetta er borið saman, þær rauntölur án þess að gera ráð fyrir verðbólgu, er um 20% aukningu ríkisútgjalda að ræða. Sú aukning og stefnumörkunin sem ríkisstjórnin hefur mótað er ávísun á verðbólgu. Hún er ávísun á gengisfall íslensku krónunnar og hún er ávísun á óbærilega hækkun vísitölu neysluverðs til verðtryggingar með þeim hætti að unga fólkið í landinu kemur til með að búa við miklar búsifjar. Við það verður ekki unað.

Við búum við slíkt góðæri, góðir Íslendingar, að það eru allir vegir færir. Við getum dregið úr ríkisútgjöldum. Við getum lagfært velferðarhallann og við getum vísað okurþjóðfélaginu í burt. Vilji er allt sem þarf.