135. löggjafarþing — 2. fundur,  2. okt. 2007.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:47]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Ég staldraði við orðalag í ræðu forseta Íslands við setningu Alþingis í gær þegar hann minntist fallins félaga okkar, Einars Odds Kristjánssonar, með fallegum hætti. Forsetinn talaði um böndin sem binda þjóðina saman og ég hugsaði með mér að það væri í raun ekki til réttari lýsing á samgöngum landsins í lofti, láði og á legi en böndin sem binda þjóðina saman. Ég tek undir með forsetanum, og ég veit að ég deili með ykkur þeirri hugsun, að mikill söknuður er að Einari Oddi. Blessuð sé minning hans.

Það er hlutskipti mitt í samgönguráðuneytinu að styrkja þau bönd sem hann ásamt öðrum batt milli landsbyggðar og höfuðborgar, milli atvinnulífs og sáttarinnar í landinu, og gæta þess að þau trosni ekki. Það er trú mín að með samgöngubótum og öflugri fjarskiptum megi færa Íslendingum og gestum okkar Ísland, það megi með þeim færa þjóðina nær landinu og landið nær heiminum öllum. Dæmi um slíkt er tilkynning okkar í samgönguráðuneytinu frá því í gær um nýjan sæstreng til Danmerkur.

Á síðustu vikum og mánuðum hafa ófáar stundir farið í það í ráðuneytinu að tryggja þessu málefni framgang. Í stjórnarsáttmálanum er kveðið á um nauðsyn þess að koma á öflugri varaleið gagnaflutninga til og frá landinu. Með nýja sæstrengnum er gengið enn lengra því að strengurinn er mun öflugri en sá fyrri og felur í sér aukin tækifæri til nýsköpunar á sviði netþjónabúa sem tilkynnt verður um á allra næstu dögum.

Herra forseti. Nú er hafin vinna við það í samgönguráðuneytinu að huga að kostum einkaframkvæmdar á þremur fyrirhuguðum verkefnum á þessu kjörtímabili. Það eru göng undir Vaðlaheiði, tvöföldun Suðurlandsvegar og Sundabraut. Það er skoðun mín að okkur beri að leita leiða til að nýta kosti markaðarins við uppbyggingu og rekstur samgöngumannvirkja eins og þeirra sem hér voru nefnd. Það er mögulegt að auka sveigjanleika, viðbragðsflýti og hæfni til að leysa ákveðin verkefni. Sýnt hefur verið fram á að slík verkefni standast frekar tímaáætlanir. Nýjar lausnir eru notaðar og kostnaður hefur minni tilhneigingu til að fara úr böndum, enda er ábyrgð og áhætta fremur verktaka en verkkaupa. Það skal tekið skýrt fram hér að gefnu tilefni að nauðsynlegt er að ráðast í gerð Sundabrautar á höfuðborgarsvæðinu og það verður gert um leið og forvinnu við þá framkvæmd lýkur.

Herra forseti. Góðir landsmenn. Við þurfum öflugar samgöngur, ekki styrki svo fólk geti flutt. Góður vegur getur skipt sköpum um framtíð byggðarlags. Stundum þarf ekki nema góðan veg til að hækka fasteignaverð. Góður vegur getur bætt atvinnuástand, góður vegur getur orðið til þess að búa til frístundabyggðir sem gefa sveitarfélögum tekjur og góður vegur getur aukið bjartsýni og tengt saman atvinnusvæði. Góður vegur styrkir þau bönd sem binda þjóðina saman.

Þetta er sú hugmyndafræði sem liggur að baki þeim fjölmörgu verkefnum sem ákveðið var að flýta í sumar í ljósi svartrar skýrslu um ástand þorskstofnsins. Við erum öll sammála um að það voru hörmuleg tíðindi og ég hugsa til þess með hryllingi ef það verður viðvarandi ástand. Það var til þess að mæta þessari vondu niðurstöðu sem ákveðið var 10. júlí sl. að setja 6,5 milljarða í flýtiframkvæmdir í vegamálum. Ríkisstjórnin tók ábyrga afstöðu með mótvægisaðgerðum sínum. Það hefði verið freistandi að gera meira í samgöngumálum en ég veit um leið að það hefði verið óábyrg afstaða.

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin er að gera eins mikið og unnt er að gera án þess að reyna um of á þanþol efnahagslífsins. Rétt eins og vegabætur voru og eru forsendur áframhaldandi byggðar í landinu er upplýsingahraðbrautin sú samgöngubylting sem enn frekar mun binda saman eina þjóð í einu landi. Ríkisstjórnin lítur á það sem hlutverk sitt að efla þau bönd og styrkja landsmönnum öllum til hagsbóta. Ég þakka þeim sem á hlýddu. — Góðar stundir.