135. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2007.

horfur í efnahagsmálum og hagstjórn.

[14:01]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Manni er nokkur vandi á höndum að fara inn í þá umræðu sem mér heyrist helst á milli þeirra stjórnarandstöðuflokka sem hafa lýst því yfir að þeir ætli að standa saman í andstöðu sinni við ríkisstjórnina. Mér heyrist umræðan hérna fyrst og fremst vera á milli þessara tveggja flokka, annars vegar dregur forustumaður Vinstri grænna upp mjög dökka mynd af því ástandi sem Framsóknarflokkurinn hefur átt þátt í að skapa sem dregur aftur upp þá mynd að hér hafi allt verið í lukkunnar velstandi þar til núna. Nú muni að sjálfsögðu allt fara á verri veginn af því að Framsókn sé ekki lengur kjölfestan í ríkisstjórninni. Þetta er myndin sem þessir tveir stjórnarandstöðuflokkar draga upp.

Auðvitað er hagstjórn á Íslandi mjög vandasöm. Hún er vandasöm og hefur alltaf verið það. Þetta er lítið hagkerfi og þar af leiðandi hafa stórar fjárfestingar alltaf verulega áhrif á það hvernig hlutirnir ganga fyrir sig í hagkerfinu, ekki síst eftir að flæði fjármagns er orðið frjálst eins og gerðist með aðildinni að EES-samningnum. Það gerir það að verkum að stjórntækin sem við höfum til að takast á við hagstjórnina eru miklu færri. Stórar fjárfestingar, eins og hafa átt sér stað á umliðnum árum, miklar fjárfestingar á okkar íslenska mælikvarða en kannski ekki á erlenda mælikvarða, setja mikið álag á hagstjórnina. Það vissum við, það vitum við og við vitum líka að fara þarf í samstilltar umbætur á öllum sviðum hagstjórnarinnar. Þetta er vandasamt og tímafrekt verkefni vegna þess að ákveðið ójafnvægi hefur sett svip sinn á íslensk efnahagsmál á undanförnum missirum. Við þurfum að stefna að því að draga úr því misvægi á næstu árum.

Vandi hagstjórnarinnar um þessar mundir er ekki síst sá að einhliða beiting stýrivaxta Seðlabankans til að hafa hemil á verðbólgunni — það er eina tækið sem Seðlabankinn hefur — heldur gengi krónunnar háu sem aftur veldur viðskiptahalla. Háir vextir, of mikill vaxtamunur milli Íslands og annarra landa, lágvaxtalanda — við getum tekið Japan, fólk tekur lán í Japan og kaupir skuldabréf á Íslandi á háum vöxtum til að ávaxta sitt pund — dregur skammtímafjármagn til landsins sem einnig heldur uppi genginu. Þetta er vandi hins frjálsa flæðis fjármagns í opnu hagkerfi sem er með sína eigin mynt, ákveðinn vítahringur sem við eigum við að etja.

Formaður Vinstri grænna hjó í Samfylkinguna í gær fyrir að tala um peningamálastefnuna, fyrir að tala um gengismálin og spyr svo: Af hverju er ekki bara breytt samkomulaginu frá því í mars 2001 um verðbólgumarkmið við Seðlabankann? Það er vegna þess að þannig aðhafast stjórnvöld ekki, þau taka ekki geðþóttaákvarðanir um að breyta þessu stýritæki. Áður en ákvörðun yrði tekin um slíkt þyrfti að fara fram mjög vel ígrunduð fagleg umræða eins og gerðist áður en lögunum um Seðlabankann var breytt 2001. Það var ekki gert bara sisvona. Menn fóru yfir það, m.a. nokkrir af okkar bestu hagfræðingum. Ég vísa til greinar sem birtist í Fjármálatíðindum, eftir Arnór Sighvatsson, Má Guðmundsson og Þórarin G. Pétursson, þar sem þeir fóru yfir þá kosti sem við ættum um gengisstefnu fyrir Ísland. Niðurstaða þeirra þá var sú að það væri líklega best fyrir okkur að vera með formlegt verðbólgumarkmið. En eins og þeir sögðu þá þyrfti það ekki að útiloka annað þegar fram liðu stundir. Þeir segja beinlínis þar að það þurfi ekki að útiloka inngöngu í myntbandalag síðar. Það er umræða sem við eigum líka eftir.

Við tökum engar skyndiákvarðanir í þessu efni en við verðum að þora að ræða peningamálastefnuna rétt eins og aðra hluti. Það er ekki boðlegt að formaður Vinstri grænna komi og segi: Af hverju breytum við þá ekki bara samkomulaginu? (Forseti hringir.) Þannig standa menn ekki að málum, hv. þingmaður.