135. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2007.

horfur í efnahagsmálum og hagstjórn.

[14:10]
Hlusta

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fór skilmerkilega yfir þau hættumerki sem eru á lofti í efnahagsástandinu hér á landi. Ég held að flestum ætti að vera ljóst að efnahagsmálin verða eitt stærsta mál þessa þings. Því er ekki að neita að hér hefur verið þensla, einkum á höfuðborgarsvæðinu og Miðausturlandi sem hefur ekki síst byggst á stóriðjuframkvæmdum þar eystra, hækkandi húsnæðisverði á höfuðborgarsvæðinu, sem er orðið með slíkum endemum að venjulegt fólk sem er að kaupa sína fyrstu eign nær varla endum saman.

Það þarf að slá á þensluna meðan hægt er. Ástandið er mjög viðkvæmt þó að ríkissjóður standi vel og fjármuni ríkissjóðs þarf að nýta skynsamlega og ekki í frekari þenslu- og verðbólguhvetjandi stóriðju og byggingaframkvæmdir, ekki í skattalækkanir sem helst nýtast þeim sem best hafa það heldur í annars konar aðgerðir.

Ég minni á að kjarasamningar eru fram undan. Það skiptir miklu að kjör þeirra sem lægst hafa launin í samfélaginu verði bætt umtalsvert um leið og stoðir velferðarkerfisins og almannaþjónustunnar verði styrktar. Slíkar aðgerðir eru ekki þensluhvetjandi á sama hátt og hreinar framkvæmdir og miða að því að endurheimta efnahagslegan og ekki síður samfélagslegan stöðugleika. Staðreyndin er sú að hér hefur þróunin því miður orðið sú að bil á milli manna og bil á milli launa hefur aukist. Sumir geta baðað sig í gullpeningum eins og Jóakim aðalönd en aðrir geta vart lifað af launum fyrir heiðarlega vinnu. Flótti er brostinn á í leikskólum og á spítölum. Fólkið sem sinnir sjúkum, öldruðum og börnum leitar í önnur störf og heimilin í landinu líða fyrir.

Bilið breikkar smátt og smátt. Um það má helst ekki tala því að þá er maður talinn öfundsjúkur en við verðum hreinlega að tala um það því að launabilið í samfélaginu snýst ekki bara um að sumir hafi meira en aðrir, það snýst um samfélagsgerð okkar Íslendinga. Við höfum átt því láni að fagna að byggja hér eitt samfélag en þegar munur milli manna verður svo mikill, á sama tíma og talað er um nýja þróun í velferðarkerfinu, aukin notendagjöld, aukinn einkarekstur, svo að dæmi sé tekið, horfum við upp á ógnvænlega þróun sem er gliðnun samfélags, eitt alvarlegasta vandamál sem nútímaríki þurfa að takast á við. Gliðnunin stafar ekki bara af því að menn hafi mismikið milli handanna því að einnig er ýtt undir muninn með ólíkri þjónustu innan velferðarkerfisins, fyrsta og annars flokks þjónustu.

Að sjálfsögðu þarf að ræða kjaramálin á ábyrgan hátt. Það þýðir ekki að um leið og nefnt er að hækka laun þeirra lægst launuðu geti menn rokið upp og talað um launaskrið og verðbólgu. Það hljómar eins og hjóm í eyrum þeirra sem minnst hafa í ljósi þess að hér var 8% verðbólga á tímabili í fyrra og enn stendur Seðlabankinn á bremsunni í von um að ná 2,5% verðbólgumarkmiði.

Forseta lýðveldisins varð tíðrætt um samkenndina í samfélaginu hér á þingsetningardaginn. Ég mundi segja að samkenndin í samfélaginu væri eitt stærsta verkefni þessarar ríkisstjórnar. Þegar kjarasamningar eru fram undan skiptir máli að ríkisstjórnin taki pólitíska ábyrgð. Það gengur ekki að drepa málum hér á dreif þegar rætt er um hagstjórn og peningamál með því að ræða bara um gjaldmiðla og hvort taka eigi upp evru eða krónu, þar sem ríkisstjórnin virðist í rauninni hafa verið nokkuð ósamstiga í því máli. Við vitum líka að evra er nokkuð sem tekur mörg ár að taka upp, yrði sú ákvörðun tekin. Því þjónar sú umræða litlum öðrum tilgangi en þeim að draga athyglina frá mun brýnni verkefnum sem varða daginn í dag, manneklunni í umönnunar- og þjónustustörfum og hag fólksins í landinu.

Það þarf að ná tökum á hagstjórninni, slá á þensluna með stöðvun stóriðjuframkvæmda og nýta þá fjármuni sem ríkissjóður hefur yfir að ráða til að bæta kjör hinna lægst launuðu og koma í veg fyrir að samfélagið gliðni hér í sundur í tvö Íslönd, eitt ríkt og annað fátækt.