135. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2007.

horfur í efnahagsmálum og hagstjórn.

[14:14]
Hlusta

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Herra forseti. Ég rak augun í litla frétt í Fréttablaðinu í morgun. Fyrirsögnin var, með leyfi forseta: „Ísland í 10. sæti.“ Þar var fjallað um niðurstöðu mælingar á vegum Alþjóðabankans á því hvar í heiminum viðskipti ganga auðveldast fyrir sig. Ísland er þar í 10. sæti af 178 ríkjum og í efsta sæti ef aðeins er litið til smærri þjóða. Þetta þykja mér ánægjuleg tíðindi.

Markmið stjórnvalda á liðnum árum hefur verið að koma Íslandi í fremstu röð á meðal þjóða og tryggja að Íslendingar búi við bestu kjör sem völ er á. Þessu verkefni lýkur að sjálfsögðu aldrei. Viðfangsefnin eru fjölmörg og flókin.

Hæglega má viðurkenna að sveiflur í íslensku efnahagslífi að undanförnu hafa verið meiri en æskilegt er. Það hefur gengið á ýmsu undanfarin missiri, enda miklar framkvæmdir í gangi auk þess sem mikill atgangur hefur verið á íbúðalánamarkaðnum. Þetta hefur óneitanlega reynt á þanþol hagstjórnarinnar í landinu. Þess vegna er mikilvægt að færa efnahagslífið nú til meira jafnvægis með hóflegum hagvexti, áframhaldandi vaxandi kaupmætti almennings, minni verðbólgu og viðskiptahalla. Allar vísbendingar sýna að íslenskt efnahagslíf stefnir í átt til jafnvægis og er ný þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins staðfesting á því.

Í þessum tilgangi er frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2008 nú lagt fram með tæplega 31 milljarðs kr. afgangi og er aðhald í ríkisfjármálunum meira en þekkst hefur áður. Fram undan eru rólegri tímar og vísbendingar um að þenslan sem hér hefur verið sé á undanhaldi. Staða ríkissjóðs er afar góð og því sérstaklega ánægjulegt að heyra hæstv. forsætisráðherra boða það í stefnuræðu sinni í gær að íslenskur almenningur og fyrirtækin í landinu eigi að fá að njóta þess beint með frekari lækkun á sköttum.

Það er með ólíkindum að hlusta á málflutning stjórnarandstöðunnar í þessari umræðu um efnahagsmál sem og í umræðum á Alþingi í gærkvöldi um stefnuræðu forsætisráðherra. Formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs brá þar ekki út af vana sínum. Hann dró upp alla gömlu þreyttu frasana sem hann hefur notað svo ótæpilega í gegnum árin, talaði um andvaraleysi ríkisstjórnarinnar, skort á trúverðugleika, blekkingarleiki, að ógleymdum uppáhaldsfrasanum, hagstjórnarmistökunum sem hann talar um í hvert sinn sem hann fær tækifæri til. Hér á allt að vera í kaldakoli, glasið er algerlega hálftómt eins og vanalega. Einnig blása stjórnarandstæðingar á öll frekari áform um skattalækkanir eins og fyrri daginn. Ég veit satt að segja ekki í hvaða raunveruleika formaðurinn lifir.

Það vita það allir sem fjalla um íslensk efnahagsmál af þekkingu að þegar á heildina er litið getur staða efnahagsmála hér á landi ekki talist annað en býsna góð. Eða vill formaðurinn ekki búa við það ástand í efnahagsmálum að hér sé full atvinna, mikill hagvöxtur, mikill kaupmáttur almennings, hagstætt skattaumhverfi, bullandi uppgangur og gróska í atvinnulífi? Ég get a.m.k. svarað fyrir sjálfa mig að í þannig umhverfi vil ég búa.

Samkvæmt nýlega endurskoðuðum tölum frá Hagstofu Íslands hefur hagvöxtur hér á landi verið samfelldur frá árinu 1993. Spár gera einnig ráð fyrir hagvexti á þessu ári og áfram næstu fjögur ár. Þetta þýðir sem sagt á mannamáli að hér á landi hefur verið samfelldur hagvöxtur í 14 ár í röð og að hér á landi verði samkvæmt spám þá samfelldur hagvöxtur 18 ár í röð. Öruggt er að slík niðurstaða er fáséð annars staðar í heiminum ef nokkur sambærileg dæmi má finna. Ég leyfi mér a.m.k. að fullyrða að ef viðlíka dæmi eru á takteinum er jafnframt öruggt að þá eru þar á ferðinni lönd sem við höfum einfaldlega mikinn áhuga á að bera okkur saman við.

Það er líka nær einsdæmi í heiminum að ríkissjóður sé allt að því skuldlaus en þannig er staðan hér. Það er mikil breyting frá því sem hún var fyrir nokkrum árum eða áratugum þegar ríkissjóður greiddi tugi milljarða kr. í vaxtagjöld af erlendum lánum ríkissjóðs. Það má svo sannarlega gera margt fyrir þessa fjármuni sem áður fór í vaxtakostnað. Þannig hefur verið unnt að styrkja velferðarkerfið meira og betur en annars staðar (Forseti hringir.) hefur verið mögulegt að gera og á þeirri braut ætlum við að vera áfram. Þetta finnst mér vera góð sýn til framtíðar.