135. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2007.

horfur í efnahagsmálum og hagstjórn.

[14:18]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Þegar nánast sömu stjórnmálaöfl fóru frá fyrir um 12 árum, þ.e. Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur, var atvinnuleysi hér mjög mikið. Um 20. hver vinnufús maður var atvinnulaus á Íslandi og staða efnahagsmála var þá slæm. Nú í vor tóku sömu stjórnmálaöfl við, þ.e. Sjálfstæðisflokkur og Samfylking. Nú er staðan hins vegar önnur. Þessir flokkar taka við einu blómlegasta búi sem um getur í Íslandssögunni. Atvinnuleysi er ekkert og allar hirslur eru fullar fjár þótt það sé rétt sem hér kom fram að við skuldum erlendis og það eru blikur á lofti.

Við framsóknarmenn erum stolt af því að hafa tekið þátt í að skapa þessar kjöraðstæður á sama tíma og okkur tókst að halda uppi öflugu velferðarsamfélagi á Íslandi. Alltaf þarf hins vegar að bæta það, það kemur ný tækni og nýjar kröfur þannig að við munum standa að því að bæta velferðarsamfélagið áfram inn í framtíðina.

Hér var áðan minnst á það að við höfum verið í 10. sæti hvað varðar fjármálamarkað. Ég vil benda á það að við erum í 1. og 2. sæti varðandi heilbrigðismál og það er sá mælikvarði sem helst er notaður við að mæla hvernig staðan er í samfélögum almennt þannig að við getum verið nokkuð stolt af þeirri stöðu. Ríkisstjórnin er því að mínu mati í óskastöðu. Hún sest að dúkuðu borði og hún er líka með ægivald. Af hverju segi ég ægivald? Jú, það er ofurmeirihluti hér á þinginu. Af 63 þingmönnum eru 43 í stjórnarflokkunum, en 20 í stjórnarandstöðu, þ.e. minna en einn þriðji þingheims. Þetta er ægivald.

Hvernig liggja svo þræðirnir í hinu svokallaða fjórða valdi? Fjórða valdið er vald fjölmiðlanna. Hvernig liggja þræðirnir þar? Það er auðvelt að svara því. Þeir sem hafa lesið dagblöðin í morgun geta séð að í leiðara tveggja stærstu dagblaðanna er gefin skýr lína. Hver er sú lína? Það er hægt að draga hana saman, þá línu, hér með því að segja í samandregnu máli: Sjálfstæðisflokkurinn er æðislegur. Hann hefur alltaf verið æðislegur og hann verður æðislegur í framtíðinni. Þetta er sú lína sem fjórða valdið gefur út í dag. Þetta er sú lína sem við höfum auðvitað fundið mörg hver um nokkurt skeið að er að skapast hjá hinu svokallaða fjórða valdi, valdi fjölmiðlanna. Þetta er Ísland í dag.

Eins og fram hefur komið er þenslan eitt helsta vandamálið í efnahagskerfinu í dag. Vextir eru himinháir og eru að sliga mjög marga. Verðbólga er undirliggjandi, atvinnuleysi er ekkert og gengi krónunnar er ekki rétt skráð. Minni fyrirtæki eiga í vandræðum með þessa stöðu. Á þessum tíma eru gefnar út tilkynningar um skattalækkanir og ég leyfi mér að gera athugasemdir við það að ríkisstjórnin er að tala upp þensluna með því að tala alltaf um skattalækkanir. Framsóknarmenn styðja skattalækkanir en við tökum undir með hagfræðingum að rétti tíminn er ekki núna. Hér hefur komið fram að Samfylkingin hefur verið gagnrýnd fyrir að veikja krónuna með því að reyna að tala hana niður og gert það með óábyrgum hætti. Ég vil líka benda á að það er óábyrgt að tala þensluna upp með skattalækkunum þegar við vitum öll hér inni að fram undan eru kjarasamningar og þar eru stórar stéttir, sérstaklega kvennastéttir, sem ætlast til þess með réttu að kaup þeirra verði leiðrétt. Við eigum að reyna að einbeita okkur að því að styðja við það en síðan geta (Forseti hringir.) skattalækkanirnar komið í kjölfarið.