135. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2007.

mótvægisaðgerðir.

[15:21]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Fyrir allmörgum árum sagði mér margfróð kona að Davíð Oddsson, fyrrum forsætisráðherra, hefði lýst því yfir í upphafi ríkisstjórnarferils síns 1991 að byggðastyrkir væru ekki á dagskrá ríkisstjórnar hans. Við það fyrirheit hefur Sjálfstæðisflokkurinn staðið upp á punkt og prik í fjögur kjörtímabil.

En landsbyggðarfólk er hvorki að biðja um styrki né ölmusu. Það krefst þess einungis að sitja við sama borð og aðrir landsmenn og á rétt á því samkvæmt stjórnarskránni. Hver var staða landsbyggðarfólks fyrir kvótaskerðinguna? Jú, fjölmargir þeirra njóta ekki háhraðatenginga og ekki farsímaþjónustu, sem er þó grundvöllur menntunar og reksturs í dag. Ríkisstjórnarár Sjálfstæðisflokksins eru vörðuð af sviknum loforðum í samgöngumálum og er jafnvel svo að íbúum sumra sjávarbyggða eru búnir átthagafjötrar lélegra samgangna. Dæmi er um að ungur drengur hafi teppt netsamband við heilt byggðarlag í þrjá tíma meðan hann var að hala niður kvikmynd af netinu.

Heilsugæsla á landsbyggðinni hangir víða á bláþræði, aðbúnaður aldraðra og hreppaflutningar eru til skammar og skólamál vanrækt. Flest sveitarfélög á landsbyggðinni bjuggu fyrir við fjársvelti vegna þess að þeim voru ekki úthlutaðir nógir tekjustofnar eða þá að búið var að fela þeim verkefni sem ekki var gert ráð fyrir tekjustofnum til.

Það vita líka allir að íbúar á landsbyggðinni búa yfir miklum krafti og hugmyndaauðgi til athafna. Þeir hafa á takteinum fullt af hugmyndum til nýsköpunar, til atvinnuuppbyggingar. En þeir koma þeim ekki í framkvæmd vegna okurvaxta og vegna þess að einokunarbankarnir sinna þeim ekki. Hvaða heilbrigður rekstur ber 20% raunvexti? Eina von landsbyggðarinnar er að Byggðastofnun verði stórefld og veiti þolinmótt fjármagn á heilbrigðum vöxtum til langs tíma. Tólf hundruð milljónir til Byggðastofnunar er eins og að pissa í skóinn sinn, það dugir ekki til. (Gripið fram í.)

Horfa verður til fleiri þátta en kvótaskerðingar. Fiskveiðistjórnarkerfið hefur brugðist, það er gjaldþrota. Í stað verndunar og eflingar nytjastofna er þorskstofninn í sögulegu lágmarki og fróðir menn segja að alls engin vissa sé fyrir því að þessi ákvörðun, með óbreyttum veiðiaðferðum, með veiðum á óbreyttri veiðislóð, með veiðum á óbreytt veiðarfæri, bjargi nokkru án hliðaraðgerða. Það liggur fyrir að í stað traustrar atvinnu er stórfellt atvinnuleysi hjá sjómönnum og í stað traustrar byggðar í landinu er fólksflótti. Reynslan sýnir að brýn þörf er á allsherjarendurskoðun.

Þeir milljarðar sem veita á í mótvægisaðgerðir upp í umrædda 20–40 milljarða kr. skerðingu, 6,5 milljarðar, eru ekki neitt. Þetta er eins og blaut tuska framan í landsbyggðina. Þessar hálfkáksaðgerðir eru enn ömurlegri fyrir þá sök að vitlaust er forgangsraðað í þjóðfélaginu og þær eru ömurlegar fyrir þá sök að afgangur af ríkissjóði á þessu ári umfram fjárlög er milli 60 og 70 milljarðar. Það var borð fyrir báru til að gera miklum mun betur.

Það sem ég hef sagt hér sýnir og sannar að Sjálfstæðisflokkurinn hefur engan vilja til að tryggja byggð í öllu landinu og til að íbúar landsbyggðarinnar njóti jafnræðis á við aðra. Mótvægisaðgerðirnar megna ekki að koma í veg fyrir þá stórfelldu viðbótarbyggðaröskun og fólksflótta sem blasir við, megna það alls ekki. Grípa hefði þurft til aðgerða í stíl við þær sem gripið var til 1971 þegar fólk flúði landsbyggðina og flúði land. (Forseti hringir.) Það er ekki verið að gera það með þessum mótvægisaðgerðum.