135. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2007.

mótvægisaðgerðir.

[15:39]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Í gegnum árin og aldirnar hefur iðulega orðið aflabrestur á Íslandsmiðum og þeir sem hafa átt afkomu sína undir sjávarútvegi hafa þurft að glíma við slíkan vanda ítrekað. Það sem við erum að gera með þessum ráðstöfunum, í kjölfar mikilvægrar ákvörðunar sem tekin var um að minnka aflaheimildirnar, er að koma til móts við fólk sem er í sambærilegri aðstöðu og oft hefur verið hér áður fyrr á árum.

Það er talið að tekjusamdrátturinn í þjóðfélaginu vegna þeirrar ákvörðunar að minnka þorskkvótann geti verið á bilinu 10–15 milljarðar árlega nettó þegar búið er að draga frá kostnaðinn við að afla teknanna. Þær aðgerðir sem við höfum kynnt hérna eru upp á u.þ.b. 11 milljarða yfir tvö til þrjú ár og mörgum finnst vel í lagt. Sú gagnrýni hefur komið frá ýmsum hagfræðingum, sem mikið hefur verið vitnað til hér í dag, að það sé vel í lagt. Það er mjög athyglisvert að heyra t.d. fulltrúa Vinstri grænna segja hér í dag: Það var borð fyrir báru til að gera miklum mun betur. Hann hefur greinilega ekki hlustað á formann sinn fyrr í dag sem kvartar yfir óráðsíu og allt of mikilli útþenslu og miklum ríkisútgjöldum. (Gripið fram í: Forgangsraða ...)

Málið er eftirfarandi: Hér er verið að taka mjög mikilvægar ákvarðanir um framtíð þorskstofnsins. Það er verið að lina þjáningar þeirra sem mestan hlut eiga að máli til að hjálpa þeim að komast í gegnum þrengingar á meðan þorskstofninn er í þessari lægð og öll hljótum við að vona að hann nái sér á strik á nýjan leik. Sveigjanleikinn í íslenskum sjávarútvegi er nú mikill, fyrirtækin eru gríðarlega öflug og ég hef fulla trú á að þau muni geta endurskipulagt starfsemi sína á þessu erfiðleikatímabili og komi heil og ósködduð út úr því þó að auðvitað verði þetta mörgum erfitt. Enginn dregur það í efa og eins og sjávarútvegsráðherra hefur sagt og ég hef líka sagt að þessar aðgerðir geta ekki komið beint í staðinn fyrir 60 þús. tonn af þorski. Þær geta aldrei runnið beint í vasana á sama fólki og þarna á hlut að máli, það er óframkvæmanlegt. Hins vegar er verið að byggja hér upp betri innviði í samfélaginu, fjölga menntunartækifærum, búa til ný atvinnutækifæri með ýmsum hætti til að koma til móts m.a. við fiskvinnslufólkið og sjómennina til að milda þetta högg. Það er auðvitað fáránlegt þegar menn tala um það af einhverri sérstakri meinbægni að ríkisstjórnin hafi gripið til þessara ráðstafana út af landsbyggðarfjandsamlegri stefnu hennar. Sú rödd hefur sem betur fer ekki verið hávær í þessum sal í dag en við höfum heyrt annars staðar frá því að sú ákvörðun var kynnt að þarna sé ríkisstjórninni rétt lýst, nú sé hún að fylgja eftir stefnu sinni um að ráðast sérstaklega á landsbyggðina. Það er auðvitað algjörlega af og frá. Með þessum mótvægisaðgerðum erum við að vinna frekar úr þessu máli, eins og heitið var í upphafi, innan skynsamlegra marka. Það verður auðvitað að hafa í huga heildarsamhengi hlutanna, heildartölurnar í þessu máli og ég fór með þær áðan. Síðan getur hver og einn reiknað fyrir sig.