135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[10:56]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. fjármálaráðherra hefur nú mælt fyrir fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár. Ráðherrann viðurkenndi reyndar sjálfur í ræðunni að það yrði lítið að marka það og boðaði að það yrði skoðað og endurskoðað næsta vor, bæði vinnulag og uppsetning fjárlagafrumvarps og fjárlaga.

Ég tek undir með hæstv. fjármálaráðherra að það frumvarp sem hér er lagt fram er nánast bara eins og vinnuplagg. Þar eru hvorki útfærð uppskipti á ráðuneytum né færsla á málaflokkum á milli ráðuneyta sem hefur stór áhrif á uppsetningu fjárlagafrumvarps og líka gjöld innan hvers málaflokks. Enn fremur eru ekki útfærðar í frumvarpinu hinar margboðuðu mótvægisaðgerðir — sem sumir kalla nú bara eins og grjót í vasa — heldur eru þær að stórum hluta í einni tölu þannig að það út af fyrir sig segir okkur að frumvarpið er gjörsamlega óunnið.

Ef litið er til reynslu fyrri ára, t.d. ársins í ár, er breyting frá samþykktum fjárlaga til áætlaðra loka þessa árs upp á eina 80 milljarða kr. innan ársins sem sýnir á hversu veikum grunni fjárlagavinnan er byggð. Ég spyr því hæstv. fjármálaráðherra: Er eitthvað sem hann gæti núna lagt frekar en á fyrri árum fram hér þannig að við gætum trúað eða að einhver geti trúað á þær tölur sem hann leggur hér fram?

Ég tek undir orð hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar í gær að einmitt ótrúverðugleiki (Forseti hringir.) fjármálaráðuneytisins við framlagningu fjárlaga er einn mesti efnahagsvandinn (Forseti hringir.) í dag, herra forseti.