135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[11:02]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Já, ég held að það sé óhætt að segja að Vinstri grænir bregðist hvorki sjálfum sér né þingheimi. Það kemur aldrei neitt uppbyggilegt frá þeim. Þeir eru bara á móti. Alveg sama sagan og jafnvel þótt flokkurinn axli nýja og meiri ábyrgð í þingsölum sem stærsti flokkur stjórnarandstöðunnar. Þá breytist ekkert. Ábyrgðin hefur greinilega engin áhrif á framgönguna.

Það er eins og að hv. þingmenn átti sig ekki á því að hagkerfið sem við búum í er opið markaðshagkerfi. Það er ekki skipulagshagkerfi. Við verðum einfaldlega að búa við óvissu um hvernig málin þróast, það er óvíst hvernig fólkið í þjóðfélaginu mun hegða sér á næstu mánuðum. Hvorki ég né aðrir getum sagt nákvæmlega til um það. Þess vegna er óvissa í þeim áætlunum sem við byggjum á og við reynum að greina þá óvissu og gera grein fyrir því hvaða áhrif það hefur ef ástandið þróast í þessa áttina eða hina frá þeirri meginspá sem um er að ræða.

Menn sem bundnir eru á klafa skipulagshagkerfisins og hugmyndafræði sem því tengist geta auðvitað ekki hugsað út frá markaðshagkerfinu. Því hlýtur málflutningurinn áfram að verða sá sami og áður. Það er mín eigin sök að ég skyldi hafa gert mér vonir um að einhver breytingar yrðu á málflutningi Vinstri grænna í þessum efnum frá síðasta þingi vegna breyttrar stöðu þeirra. Því miður brugðust þær vonir.