135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[11:06]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að það er mjög æskilegt að menn komi sér út úr kosningaham. Ég hef sjálfur talið mig kominn úr þeim ham þótt stjórnmálamenn séu í þeirri stöðu að þeir þurfa í öllum sínum störfum að huga að því að kosningar verða áður en varir.

Mér sýnist hv. þm. Bjarni Harðarson í sama ham og hann var í í kosningunum, að vera svolítið á skjön við það sem meðframbjóðendur hans og núverandi formaður flokksins kynnti, aðeins á hliðarsporinu, alltaf aðeins á móti því og ekki alveg í takt við það sem formaðurinn talaði um. Það sem hann talar um er a.m.k. á skjön við það sem formaður Framsóknarflokksins, hv. þm. Guðni Ágústsson talaði um í gær. Honum fannst þá fjárlagafrumvarpið ekki nægilega bólgið. Hann lagði fram hugmyndir um ríflega 6 milljarða kr. viðbótarútgjöld við mótvægisaðgerðirnar. Þá mundi fjárlagafrumvarpið bólgna enn meira og varla mundi það gleðja hv. þm. Bjarna Harðarson miðað við það sem hann sagði áðan.

Hins vegar get ég upplýst háttvirtan þingmann um, eins og ég gat um í upphafi ræðu minnar, að það tekur dálítinn tíma að breyta kúrsinum í ríkisfjármálunum. Mjög stór hluti af þeim ákvörðunum sem lágu fyrir við gerð þessa frumvarps sem hér er um að ræða var tekinn í tíð síðustu ríkisstjórnar. Þar á meðal var stór hluti af þeim ákvörðunum sem teknar voru um framkvæmdir í samgönguáætlun sem (Forseti hringir.) samþykkt var síðasta vor. Háttvirtur þingmaður getur þá gagnrýnt formann sinn áfram ef honum sýnist svo.