135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[11:35]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég velti því fyrir mér, þó að það sé fráleit hugmynd eða óraunveruleg, að hæstv. fjármálaráðherra væri starfsmaður á leikskóla eða ég velti fyrir mér, þó að það sé jafnfráleitt, að hæstv. fjármálaráðherra væri starfsmaður á sjúkrahúsi þar sem sjúklingum væri raðað í röð á ganginum vegna þess að það væri ekki pláss og það vantaði hjúkrunarfólk. Og ég velti fyrir mér að ef fjármálaráðherra væri orðinn elli- og örorkulífeyrisþegi og væri bara á grunnlífeyri hvaða augum hann mundi þá líta á ríkissjóð sem er með 60, 70 eða 80 milljarða kr. meiri viðbótartekjur en ráð var fyrir gert fyrir nokkrum mánuðum og ætlaði ekki að sýna lit til þess að ráðstafa því að einhverju leyti til þess að jafna misréttið í samfélaginu.

Það er líka kannski einn veikur hlekkur þessa frumvarps að í því er ekki gert ráð fyrir neinum teljandi launabótum, kjarabótum til umönnunarstéttanna á sjúkrahúsunum, heilbrigðisstofnunum, elliheimilunum, leikskólunum. Það er ekki gert ráð fyrir því í þessu frumvarpi og mér finnst fullkomin veruleikafirring af hæstv. fjármálaráðherra að gera sér ekki grein fyrir því að hér verða að koma stórbætur ef við ætlum að halda jöfnuði og halda samfélaginu saman. Það er krafa okkar númer eitt.